Esja náði í eitt stig í Belgrad

Jan Semorád, nýjasti liðsmaður Esju, á ferðinni með pökkinn í …
Jan Semorád, nýjasti liðsmaður Esju, á ferðinni með pökkinn í leik gegn Rauðu stjörnunni á föstudag. Ljósmynd/Srdjan Stevanovic

Íslandsmeistarar Esju í íshokkí máttu sætta sig við tap í vítakeppni fyrir Tyrklandsmeisturum Zeytinburnu í þriðja og síðasta leik sínum í Evrópukeppni félagsliða í Belgrad í dag. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 2:2.

Robbie Sigurðsson skoraði úr fyrsta víti Esju í vítakeppninni en það var jafnframt eina vítið sem liðið nýtti og unnu Tyrkirnir hana 2:1. Engu að síður getur Esja nú státað sig af því að hafa landað fyrsta stigi íslensks félagsliðs í Evrópukeppni, enda þreytir liðið nú frumraun fyrir Íslands hönd á þessu sviði.

Esja hafði áður tapað 6:1 fyrir heimamönnum í Rauðu stjörnunni í fyrsta leik og svo 4:2 fyrir búlgörsku meisturunum í Irbis-Skate í gær. Zeytinburnu lýkur keppni með fimm stig en það ræðst síðar í dag hvort það verður Irbis eða Rauða stjarnan sem kemst áfram á næsta stig keppninnar.

Útlitið var ekki gott fyrir Esjumenn þegar tíu mínútur lifðu venjulegs leiktíma í dag. Þrátt fyrir jafnan og spennandi leik komst Zeytinburnu í 1:0 í 2. leikhluta og svo í 2:0 eftir fimm mínútna leik í þriðja leikhlutanum.

Þrátt fyrir að vera með afar þunnskipaðan hóp á mótinu, og sérstaklega í dag þar sem aðeins 13 útileikmenn voru til taks, virtist sem Esjumenn hefðu meira úthald og þeir voru frábærir á lokamínútum venjulegs leiktíma. Á tveimur mínútum tókst þeim að jafna metin þegar Jan Semorád og Pétur Maack skoruðu. Fleiri færi fylgdu í kjölfarið en ekki tókst að skora og því var gripið til framlengingar. Þar fengu bæði lið fín færi til að skora sigurmark en úrslitin réðust í vítakeppni eins og áður segir.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is í beinni textalýsingu en viðtöl koma inn síðar í dag auk þess sem fjallað verður um mótið í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Leikmannahópur Esju í dag: Atli Snær Valdimarsson (M), Daníel Freyr Jóhannsson (M), Andri Þór Guðlaugsson, Aron Knútsson, Daniel Kolar, Egill Þormóðsson, Einar Sveinn Guðnason, Gunnlaugur Guðmundsson, Jan Semorád, Konstantyn Sharapov, Markús Darri Maack, Petr Kubos, Pétur Maack, Robbie Sigurðsson, Róbert Freyr Pálsson.

Zeytinburnu 4:3 Esja opna loka
65. mín. Daniel Kolar (Esja) Víti fer forgörðum Zeytinburnu fagnar sigri eftir vítakeppni. Esja krækti þó í sitt fyrsta stig í Evrópukeppni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert