KR sigraði Grindavík í toppslagnum 82:80

Viðureign KR og Grindavíkur í Iceland Express deildinni í jöfn …
Viðureign KR og Grindavíkur í Iceland Express deildinni í jöfn og spennandi. mbl.is/Ómar

Toppliðin í Iceland Express deild karla í körfuknattleik mættust í DHL höllinni í Frostaskjóli í kvöld. Leikurinn átti að hefjast klukkan 19:15 en vegna bilunar í stigatöflu hússins hófst leikurinn um fimmtíu mínútum á eftir áætlun. KR-ingar höfðu að lokum sigur 82:80 eftir hraðan og skemmtilegan leik. KR-ingar eru því enn með fullt hús eftir sex leiki en þetta var fyrsta tap Grindvíkinga. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Stigahæstir KR:
Jón Arnór Stefánsson 25
Jason Dourisseau 17
Jakob Sigurðarson 14 

Grindavík:
Þorleifur Ólafsson 26
Brenton Birmingham 19
Páll Axel Vilbergsson 12 

4. leikhluti:

Þorleifur setti niður þriggja stiga körfu þegar 4 sek voru eftir en KR-ingar fagna sigri 82:80.  

Jón Arnór fór langt með að tryggja KR stigin þegar hann skoraði og breytti stöðunni í 82:77. UMFG tekur leikhlé þegar 17 sek eru eftir. 

Grindvíkingar unnu boltann af KR-ingum og fengu villu. Páll Axel setti annað vítið niður og staðan 80:77 þegar um hálf mínúta er eftir. 

Staðan er 80:76 fyrir KR sem eru með boltann og um 40 sek eru eftir af leiknum.  

KR-ingarnir Fannar Ólafsson og Helgi Magnússon eru báðir farnir af velli með fimm villur.  

Staðan er 78:74 fyrir KR þegar um ein og hálf mínúta er eftir af leiknum og KR-ingar eru með boltann. 

Páll Kristinsson Grindavík er farinn af leikvelli með fimm villur en hann skoraði níu stig og tók sjö fráköst. Fannar Ólafsson er kominn með fjórar hjá KR. 

Grindvíkingar eru að spila mjög öfluga vörn þessa stundina og eru verulega búnir að saxa á forskot Vesturbæinga. Þegar um þrjár mínútur eru eftir af leiknum er forskot KR-inga komið niður í fjögur stig 78:74. Gamla kempan Brenton Birmingham er kominn með 19 stig fyrir Grindavík.

Helgi Már Magnússon KR er kominn með fjórar villur. Staðan er 76:67 þegar síðasti leikhluti er hálfnaður.

Grindvíkingar hafa minnkað muninn niður í átta stig þegar tæplega sjö mínútur lifa af leiknum.  

Grindvíkingar hafa byrjað síðasta leikhlutann af krafti og skorað fyrstu sex stigin. Þar af skoraði hinn 36 ára gamli Nökkvi Már Jónsson sín fyrstu stig í kvöld. Staðan er því 71:61. 

3. leikhluti: 

KR-ingar eru með gott forskot 71:55 fyrir síðasta leikhlutann auk þess sem Þorleifur og Páll Kristins eru báðir komnir með fjórar villur hjá gestunum. 

KR-ingar eru yfir 64:55 þegar ein og hálf mínúta er eftir af leikhlutanum. Jakob er að sækja í sig veðrið í sókninni og er kominn með 14 stig fyrir KR. Páll Kristinsson er kominn með fjórar villur hjá Grindvíkingum.

KR er með níu stiga forskot 58:49 þegar þriðji leikhluti er rúmlega hálfnaður. 

Grindvíkingar skoruðu sjö stig í röð og breyttu stöðunni úr 50:39 yfir í 50:46. Þar af skoraði Þorleifur fimm stig í röð. Helgi Jónas Guðfinnsson Grindavík og Jakob KR-ingur hafa jafnframt sett niður sínar fyrstu þriggja stiga körfur. 

Þorleifur Ólafsson er kominn með fjórar villur og er sá eini sem er með meira en tvær villur.  Staðan er 50:43 fyrir KR.

Jakob Sigurðarson skoraði fyrstu stigin í síðari hálfleik með þriggja stiga skoti. KR er yfir 48:39.  

Stigahæstir í fyrri hálfleik:

KR:

Jón Arnór Stefánsson 16

Fannar Ólafsson 8

Jason Dourisseau 8 

Grindavík:

Brenton Birmingham 12 

Þorleifur Ólafsson 9

Páll Kristinsson 7 


2. leikhluti:

KR-ingar eru yfir í hálfleik 45:39 eftir fjörugan fyrri hálfleik.  

KR-ingar eru yfir 40:37 þegar ein og hálf mínúta er eftir af fyrri hálfleik. Stigahæsti leikmaður deildarinnar, Páll Axel Vilbergsson hjá Grindavík, var að skora aðra körfu sína kvöld en hann hefur hingað til verið ískaldur.  

KR-ingar hafa bætt hjá sér varnarleikinn á undanförnum mínútum og eru komnir yfir 34:29.  

Staðan er jöfn 29:29 og allt útlit fyrir spennandi leik. Jón Arnór Stefánsson hefur skorað tíu stig fyrir KR en Brenton Birmingham hefur skorað tólf fyrir Grindavík. 

KR-ingar byrja betur í öðrum leikhluta og hafa skorað fyrstu fjögur stigin.  KR er því yfir 25:23.

1. leikhluti: 

Grindvíkingar eru yfir eftir fyrsta leikhluta 23:21. Þeir skoruðu fimm stig í síðustu sókn sinni. Brenton Birmingham settir niður þriggja stiga skot og fékk vítaskot að auki. Þá fékk Benedikt Guðmundsson þjálfari KR tæknivillu og skoruðu Grindvíkingar úr öðru vítinu sem því fylgdi.

Grindvíkingar hafa tekið hressilega við sér og breytt stöðunni úr 12:8 í 12:18 sér í hag og skoruðu því tíu stig í röð. Þorleifur og Guðlaugur Eyjólfsson skoruðu sína þriggja stiga körfuna hvor. 

Leikmönnum hafa verið ansi mislagðar hendur til þess að byrja með. KR-ingar eru yfir 12:8 og hefur Jón Arnór Stefánsson skorað átta stig.

Aðstæður eru nokkuð frumstæðar hvað varðar framkvæmd leiksins. Ekki er hægt að notast við tæknina og því sjá leikmenn ekki skotklukku. Það er því þulur sem lætur leikmenn vita þegar átta sekúndur eru eftir af skotklukkunni og telur niður í framhaldinu. 

Þorleifur Ólafsson byrjaði leikinn á þriggja stiga körfu fyrir Grindvíkinga sem eru yfir 5:2.

Dómararnir hafa gefið merki um að leikurinn geti hafist og er nú verið að kynna leikmenn. 

Þulurinn í DHL-höllinni tilkynnti rétt í þessu að búið væri að finna út hvað ylli biluninni í stigatöflunni og reiknað væri með að leikurinn gæti hafist upp úr klukkan 20. Dómarar leiksins hafa staðfest að leikurinn muni fara fram.

Þrjátíu mínútur eru síðan leikurinn átti að hefjast og áhorfendur eru farnir að ókyrrast nokkuð.  

DHL höllinn er orðin smekkfull af áhorfendum og má reikna með að um 800 manns séu í húsinu. 

Leikmenn eru ýmist að skjóta á körfurnar eða teygja á vöðvunum. Eru sem sagt í biðstöðu á meðan starfsmenn reyna að greiða úr tæknimálunum. 

Smávægileg seinkun verður á því að dómarapar kvöldsins,  Sigmundur Már Herbertsson og Kristinn Óskarsson, flauti til leiks. Einhver vandræði eru með stigatöfluna í DHL höllinni en starfsmenn leiksins eru að vinna í þeim málum. 

Þessi lið  léku einmitt til úrslita í Powerade bikarkeppninni í haust og þá sigruðu KR-ingar eftir æsispennandi leik. Jason Dourisseau réði úrslitum í leiknum með því að setja niður þriggja stiga körfu á lokasekúndunum. 

Leitað að bilun í leikhlukkunni í DHL-höllinni hjá KR-ingum. Leikurinn …
Leitað að bilun í leikhlukkunni í DHL-höllinni hjá KR-ingum. Leikurinn er loks hafinn, 50 mínútum síðar en reiknað var með. mbl.is/Ómar
Úr leik KR og Grindavíkur í DHL-höllinni í kvöld.
Úr leik KR og Grindavíkur í DHL-höllinni í kvöld. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert