Shaq verður ekki með í stjörnuleiknum

Enginn Shaq í stjörnuleiknum.
Enginn Shaq í stjörnuleiknum. Reuters

Það verður enginn Shaquille O'Neal í liði Austurdeildarinnar þegar flautað verður til leiks í stjörnuleik NBA deildarinnar í körfuknattleik 17. febrúar. Hann var ekki valinn að þessu sinni en hafði verið valinn fjórtán ár í röð.

Shaq nær því ekki að slá metið og vera með í stjörnuleiknum 15 ár í röð. Aðeins Jerry West og Karl Malone hafa náð því að leika 14 ár í röð í stjörnuleiknum og víst er um að margir munu sakna þess að hafa Shaq ekki með.

„Shaq er eiginlega stjörnuleikurinn og hann hefur verið aðalmerki hans síðustu árin. Fólk vill hafa hann þarna og því er þetta dálítið furðulegt í ár. En við vorum með Magic Johnson í stjörnuleiknum þó svo hann væri hættur að spila,“ sagði Stan Van Gundy, fyrrum þjálfari Miami og Shaq, en vildi ekki gefa út hvort hann hefði valið risann.

Það eru þjálfarar liðanna sem velja varamennina en almenningur velur byrjunarliðin með kosningu á netinu.

Lið Austurdeildarinnar er þannig skipað:

Jason Kidd, Dwyane Wade, LeBron James, Kevin Garnett og Dwight Howard eru í byrjunarliðinu og á bekknum verða: Chris Bosh frá Toronto, Joe Johnson frá Atlanta, Paul Pierce frá Boston, Caron Butler og Antawn Jamison koma frá Washington og þeir Chauncey Billups og Richard Hamilton frá Detroit.

Vesturdeildin: Allen Iverson, Kobe Bryant, Carmelo Anthony, Tim Duncan og Yao Ming.

Varamennirnir sem valdir voru í nótt eru Steve Nash og Amare Stoudemire hjá Phoenix, Carlos Boozer frá Utah, Brandon Roy frá Portland, Dirk Nowitzki frá Dallas og þeir Chris Paul og David West frá New Orleans. 

Þrír nýliðar eru í liðinu því Brandon Roy er í liðinu í fyrsta sinn sem og þeir Chris Paul og David West sem leika með spútnikliði New Orleans, en leikurinn verður einmitt þar í borg.

Eins og sjá má á liðsskipaninni hjá báðum liðum eru margir þekktir og frábærir körfuboltamenn utan við liðin enda aðeins aðeins 12 sæti í hverju liði og því ljóst að einhverjir yrðu að sitja eftir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert