Grindvíkingar sóttu tvö stig til Keflavíkur

Hörður Axel Vilhjálmsson í Keflavík reynir að fara framhjá Páli …
Hörður Axel Vilhjálmsson í Keflavík reynir að fara framhjá Páli Kristinssyni hjá Grindavík í leiknum í kvöld. mbl.is/Skúli Sigurðsson

Grindvíkingar sóttu Keflvíkinga heim í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld og sigruðu, 85:82, í hörkuleik. Snæfell vann ÍR í Seljaskóla, 82:76, og FSu fór létt með Breiðablik í Smáranum, 96:77.

Keflavík - Grindavík - beint á tölfræðivef KKÍ.

40. Leik lokið: Eftir jafnan og spennandi leik tókst Grindvíkingum að hafa betur í Keflavík 85:82. Arnar Freyr Jónsson innsiglaði sigurinn af vítalínunni fjórum sekúndum fyrir leikslok.  Brenton Birmingham var stigahæstur gestanna með 18 stig en Sigurður Þorsteinsson var atkvæðamestur hjá Keflavík með 22 stig.

33. Grindavík er yfir 73:67. 

30. Grindvíkingar eru fimm stigum yfir fyrir síðasta leikhlutann í Keflavík 70:65. Djúpmaðurinn Sigurður Þorsteinsson hefur skorað 20 stig og tekið 8 fráköst fyrir Keflavík en er nú þegar kominn með fjórar villur. Gamla brýnið Brenton Birmingham hefur stolið boltanum fimm sinnum af Keflvíkingum.

26. Grindvíkingum hefur tekist að slíta sig frá Keflvíkingum á ný og eru nú yfir 63:55.

23. Þegar um þrjár mínútur eru liðnar af síðari hálfleik er allt í járnum í Keflavík. Staðan er 53:53.

20. Keflvíkingar hafa sótt verulega í sig veðrið eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og útlit fyrir æsispennandi síðari hálfleik. Staðan er 46:50 fyrir Grindavík í hálfleik.

15. Grindvíkingar hafa raðað niður körfunum í Keflavík og eru búnir að skora 42 stig þegar annar leikhluti er aðeins hálfnaður en Keflvíkingar 30. Páll Axel Vilbergsson og Brenton Birmingham eru báðir komnir með 10 stig fyrir Grindavík.

10. Grindvíkingar hafa byrjað vel í Keflavík og eru yfir 24:28 eftir fyrsta leikhluta. Greinilega hraður leikur á milli þessara nágrannaliða og mikið skorað.

ÍR - Snæfell 76:82.

40. BÚIÐ. Snæfell tryggði sér sigur á lokasprettinum, lokatölur 76:82. Hólmarar jöfnuðu fljótlega í fjórða leikhluta og liðin skiptust á um forystuna þar til Snæfell breytti stöðunni úr 72:73 í 72:77 undir lokin. Sigurður Þorvaldsson gerði 20 stig fyrir Snæfell, Lucious Wagner 19 og Hlynur Bæringsson 12. Hreggviður Magnússon gerði 22 stig fyrir ÍR, Sveinbjörn Claessen 17 og Eiríkur Önundarson 15.

30. ÍR er með forystu eftir þriðja leikhluta, 58:54, eftir að hafa breytt stöðunni úr 45:50 í 51:50 um hann miðjan. Hreggviður Magnússon er með 18 stig fyrir ÍR og Lucious Wagner 19 stig fyrir Snæfell.

20. Staðan í hálfleik er 39:43 og Snæfell var með 3-10 stiga forystu allan annan leikhluta. Mestu munaði tíu stigum, 25:35. Hreggviður Magnússon gerði 11 stig fyrir ÍR í fyrri hálfleik og Sveinbjörn Claessen 8. Lucious Wagner gerði 15 stig fyrir Snæfell og Sigurður Þorvaldsson 10. 

10. Snæfell var skrefi á undan frá byrjun og breytti stöðunni úr 14:15 í 14:22 í fyrsta leikhluta en staðan að honum loknum var 20:25.

Breiðablik - FSu:

40. Leik lokið. FSu sigraði örugglega 96:77 og var með gott forskot alveg frá því í öðrum leikhluta og leikurinn varð aldrei ýkja spennandi. Með sigrinum kemst FSu upp að hlið Blika með 14 stig.

37. FSu er yfir 93:66 og ljóst að stigin úr þessum leik fara á Selfoss.

33. Tyler Dunaway hefur haldið eins konar sýningu á þessum mínútum sem liðnar eru af síðasta leikhlutanum. Hann hefur þegar skorað níu stig fyrir FSu í þessum leikhluta. 

30. Blikar þurfa að eiga stórleik í síðasta leikhluta ætli þeir sér að hirða stigin sem í boði eru. FSu er með tuttugu stiga forskot fyrir síðasta leikhlutann, 75:55. 

27. Blikar hafa ekki lagt árar í bát og eru nú búnir að skora 10 stig gegn 2 og eru búnir að minnka muninn í 45:62. 

25. Gestirnir að austan eru smám saman að auka forskot sitt í Smáranum. FSu er yfir 60:35 þegar þriði leikhluti er tæplega hálfnaður. 

20. FSu er yfir 52:33 að loknum fyrri hálfleik í Smárnum. Sunnlendingar hafa hitt afar vel og eru með leikinn í hendi sér sem stendur. Kópavogsbúar hafa hins vegar átt erfitt uppdráttar og eru ekki að fá auðveld skotfæri í sóknarleik sínum. 

17. FSu er búið að byggja upp gott forskot í fyrri hálfleik og er yfir 41:27 þrátt fyrir að lykilmaður Breiðabliks, Nemanja Sovic, hafi náð sér vel á strik í öðrum leikhluta.

14. Staðan er 30:25 fyrir FSu þegar tæpar fjórar mínútur eru liðnar af öðrum leikhluta. 

10. Að loknum fyrsta leikhluta eru gestirnir frá Selfossi yfir 25:18. Þeir hafa verið mun ákveðnari í sínum aðgerðum eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert