Sigurður yfirgefur Keflavík og tekur við Solna

Sigurður Ingimundarson
Sigurður Ingimundarson mbl.is/Árni Sæberg

„Ég skrifaði undir samning í morgun og ég er þegar byrjaður að undirbúa næsta tímabil. Mér líst vel á þettta lið og þann metnað sem forráðamenn liðsins búa yfir,“ sagði Sigurður Ingimundarson þjálfari íslenska landsliðsins í körfuknattleik en hann mun þjálfa sænska úrvalsdeildarliðið Solna Vikings á næsta tímabili. 

„Solna er ekki stærsta félagið í sænsku úrvalsdeildinni en liðið er með mikla hefð og það varð meistari fyrir ári síðan í sjötta sinn í sögu félagsins og það endaði í öðru sæti á leiktíðinni sem lauk í vor. Ég mun ekki fara sjálfur til Stokkhólms fyrr en eftir landsleikjatörnina í ágúst en keppnistímabilið hefst um mánaðarmótin september/október,“  bætti Sigurður við.

Forráðamenn Keflavíkur þurfa nú að finna nýjan þjálfara fyrir karlalið Keflavíku en Sigurður hefur þjálfað liðið undanfarin 13 tímabil. „Það eru fullt af hæfum þjálfurum sem geta tekið við liðinu. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því,“ sagði Sigurður. 

Á heimasíðu félagsins er sagt frá því að félagið sé langt komið með að semja við landsliðsmann frá einu af Norðurlöndunum í stöðu framherja. Og er allt eins líklegt að það sé Helgi Magnússon leikmaður Íslandsmeistaraliðs KR. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert