Nýliðinn skoraði 55 stig

Ray Allen, bakvörður Boston, leikur framhjá Roy Hibbert, miðherja Indiana, …
Ray Allen, bakvörður Boston, leikur framhjá Roy Hibbert, miðherja Indiana, í leik liðanna í nótt. Reuters

Brandon Jennings, nýliði hjá Milwaukee Bucks, skráði nafn sitt í sögubækur NBA-deildarinnar í nótt þegar hann skoraði 55 stig í sigri liðsins á Golden State Warriors, 129:125.

Jennings hafði ekki skorað eitt einasta stig að loknum fyrsta leikhluta en tók síðan leikinn nánast í sínar hendur. Í þriðja leikhluta gerði hann 29 stig en þá skoraði allt lið mótherjanna 26.

Jennings sló félagsmet nýliða hjá Milwaukee en það átti enginn annar en Kareem Abdul-Jabbar, sem þá hét Lew Alcindor, en hann skoraði 51 stig í leik fyrir liðið á sínu fyrsta tímabili í deildinni, árið 1970.

Þá hjó hann nærri NBA-meti nýliða sem goðsögnin Wilt Chamberlain setti árið 1960 en þá skoraði Chamberlain heitinn tvívegis 58 stig í leik í deildinni.

„Þetta er svakalegt. Ég held að þetta sé besta frammistaða nýliða sem ég hef séð á þrjátíu og eitthvað árum. Við reyndum allt til að stöðva hann," sagði Don Nelson, hinn reyndi þjálfari Golden State.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Atlanta - New Orleans 121:98
Charlotte - Portland 74:80
Indiana - Boston 113:104
Washington - Detroit 103:106
Cleveland - Utah 107:103
Miami - New Jersey 81:80
Chicago - Philadelphia 94:88
Memphis - Minnesota 97:87
Milwaukee - Golden State 129:125
San Antonio - Oklahoma City 98:101

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert