Allen tryggði Boston nauman sigur

Rudy Fernandez hjá Portland og Rajon Rondo hjá Boston í …
Rudy Fernandez hjá Portland og Rajon Rondo hjá Boston í baráttu um boltann í leiknum í nótt. Reuters

Boston Celtics komst á sigurbraut á ný eftir slæmt gengi undanfarið en þurfti framlengingu og þriggja stiga körfu frá Ray Allen til að sigrast á Portland Trail Blazers i Boston í nótt, 98:95.

Allen hafði átt einn sinn slakasta leik á tímabilinu og hitti aðeins úr þremur af fjórtán skotum sínum í venjulegum leiktíma. En þegar mest lá við undir lok framlengingarinnar skoraði hann sigurkörfuna með glæsilegu langskoti.

„Hann hefur gert þetta svo oft að það var engin ástæða til að efast um að hann gæti það aftur. Skotmenn halda áfram að skjóta og maður hugsar bara sem svo að hvert skot sem  geigar eykur líkurnar á að það næsta fari niður," sagði Doc Rivers þjálfari Boston sem hélt tryggð við Allen til loka leiksins.

Paul Pierce var stigahæstur hjá Bolton með 24 stig en Andre Miller  gerði 28 stig fyrir Portland. Boston hafði tapað þremur heimaleikjum í röð á versta kafla sínum á tímabilinu.

Kobe Bryant skoraði 27 stig fyrir Lakers og Lamar Odom tók 14  fráköst þegar liðið vann útisigur á New York Knicks, 115:105.

Dwyane Wade skoraði 32 stig fyrir Miami Heat í öruggum útisigri á Washington Wizards, 112:88.

Úrslitin í nótt:

Orlando - Sacramento 100:84
Philadelphia - Dallas 92:81
Toronto - Milwaukee 101:96
Washington - Miami 88:112
Atlanta - Charlotte 103:89
Boston - Portland 98:95 (framlenging)
Detroit - Indiana 93:105
Memphis - Oklahoma City 86:84
Minnesota - New Orleans 96:94
New York - LA Lakers 105:115
San Antonio - Houston 109:116
Golden State - New Jersey 111:79
Phoenix - Chicago 104:115

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert