Phoenix jafnaði metin gegn Portland

Jeff Green hjá Oklahoma og Kobe Bryant hjá Lakers berjast …
Jeff Green hjá Oklahoma og Kobe Bryant hjá Lakers berjast um boltann undir körfunni í leik liðanna í nótt. Reuters

Los Angeles Lakers, Boston Celtics og Atlanta Hawks komust öll í 2:0 í einvígjum sínum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt en Phoenix Suns náði að jafna metin gegn Portland Trail Blazers, 1:1.

Lakers vann Oklahoma City Thunder, 95:92, í hörkuleik í Staples Center og þar var það Kobe Bryant sem gerði útslagið. Hann skoraði 15 stig í fjórða leikhluta, þar af sjö í röð eftir að Lakers hafði lent undir, 86:88, og var með 39 stig alls í leiknum. Pau Gasol tók 12 fráköst fyrir Lakers. Kevin Durant var með 32 stig og 8 fráköst fyrir Oklahoma. Staðan er 2:0 fyrir Lakers en næstu tveir leikir fara fram í Oklahoma.

Boston var ekki í nokkrum vandræðum með Miami Heat og vann stórsigur, 106:77, og fer með 2:0 forskot til Flórída. Boston skoraði 21 stig í röð í öðrum leikhluta og samtals 41 stig gegn 8 á kafla sem náði yfir í þann þriðja, og þar gerði liðið út um leikinn. Doc Rivers þjálfari Boston sagði að þetta væru án efa bestu 16 mínútur liðsins í vetur. Ray Allen skoraði 25 stig fyrir Boston og Rajon Rondo tók 12 fráköst. Dwyane Wade skoraði 29 stig fyrir Miami.

Atlanta lagði Milwaukee Bucks, 96:86, og er með 2:0 forystu fyrir næstu tvo leikina sem fara fram í Milwaukee. Joe Johnson skoraði 27 stig fyrir Atlanta og Josh Smith var með 14 fráköst og 9 stoðsendingar. John Salmons skoraði 21 stig fyrir Milwaukee.

Phoenix sneri blaðinu heldur betur við gegn Portland eftir tap á heimavelli í fyrsta leiknum, vann 119:90 og staðan er 1:1. Jason Richardson skoraði 29 stig fyrir Phoenix og Steve Nash átti 16 stoðsendingar. Martell Webster skoraði 16 stig fyrir Portland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert