Hlynur og Jakob sænskir meistarar

Jakob Örn Sigurðarson
Jakob Örn Sigurðarson mbl.is/hag

Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson urðu rétt í þessu sænskir meistarar í körfuknattleik  þegar lið þeirra Sundsvall Dragons sigraði fráfarandi meistara í Norrköping Dolphins 102:83 í oddaleik um titilinn og samtals 4:3 í úrslitarimmunni eftir að hafa lent 2:3 undir.

Jakob fór á kostum í oddaleiknum og var stigahæstur á vellinum með 31 stig þar af gerði hann 26 í fyrri hálfleik. Hittni Jakobs var stórbrotin í leiknum því hann setti niður 7 af 11 þriggja stiga skotum sínum, 3 af 5 innan teigs og 4 af 5 á vítalínunni.

Hlynur Bæringsson skoraði 9 stig og reif niður 9 fráköst eða flest allra á vellinum.  Hann er á fyrsta ári sínu hjá Sundsvall og Jakob á sínu öðru tímabili.

Svíinn Peter Öqvist stýrir liði Sundsvall en hann var á dögunum ráðinn þjálfari karlalandsliðs Íslands. Hann gerði Sundsvall einnig að meisturum árið 2009.

Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. mbl.is/hag
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert