Toppliðin mætast í Stykkishólmi

Ingi Þór Steinþórsson, þjálari Snæfells, mætir gömlum félaga sínum, Benedikt …
Ingi Þór Steinþórsson, þjálari Snæfells, mætir gömlum félaga sínum, Benedikt Guðmundssyni, þjálfara Þórs í Þorlákshöfn í kvöld þegar Snæfell og Þór leiða saman hesta sína í 10. umferð Dominosdeildar karla í körfuknattleik í Stykkishólmi. Eggert Jóhannesson

Tvö af þremur efstu liðum úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, leiða saman hesta sína í íþróttahúsinu í Stykkishólmi í kvöld þegar Snæfellingar fá Benedikt Guðmundsson og lærisveina hans í Þór úr Þorlákshöfn í heimsókn.

Bæði lið hafa 14 stig að loknum níu umferðum í deildinni.  Íslandsmeistarar Grindavíkur, sem einnig hafa 14 stig eftir níu leiki í deildinni, sækja Fjölni heim í Dalhús í Grafarvogi.

Heil umferð verður í Dominosdeildinni í kvöld og hefjast allir leikirnir klukkan 19.15.

Auk leikjanna tveggja sem að ofan er getið fara leikmenn Stjörnunnar til Ísafjarðar og mæta liðsmönnum KFÍ. Tindastóll, sem vann sinn fyrsta leik í deildinni fyrir viku, fær ÍR-inga í heimsókn í íþróttahúsið á Sauðárkróki. Suðurnesjaliðin Keflavík og Njarðvík eigast við í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ. Loks fær Skallagrímur lið KR í heimsókn í Borgarnes.

Umferðin í kvöld er sú síðasta í deildinni fyrir jól.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert