Leit á puttann í hálfgerðu sjokki

Martin Hermannsson lítur á puttann eftir að hann fór úr …
Martin Hermannsson lítur á puttann eftir að hann fór úr lið. mbl.is/Eva Björk

„Ég er stokkbólginn og marinn en þetta lítur bara vel út held ég,“ sagði Martin Hermannsson sem reiknar ekki með að missa úr einn einasta leik í Dominos-deildinni í körfuknattleik eftir að fingur hans fór úr lið í leiknum gegn Þór Þorlákshöfn í gærkvöld.

KR á þrjá leiki eftir í deildinni fram að jólum en liðið hefur unnið alla átta leiki sína til þessa og Martin á stóran þátt í því. Hann ætlar ekki að missa af leiknum við Skallagrím næsta fimmtudagskvöld.

„Ég býst við að teipa bara tvo putta saman ef til þess kemur, en ég fer til sjúkraþjálfara í dag til að meta þetta betur. Ég get hreyft puttana alveg þannig að þetta er alla vega ekki brot eða neitt svoleiðis. Ég er nokkuð bjartsýnn á að missa ekki úr leik,“ sagði Martin, sem brá talsvert þegar fingurinn fór úr lið.

Puttinn var eins og Z í laginu

„Ég misreiknaði boltann. Það kom skot á körfuna og ég ætlaði upp í frákast en boltinn snerti ekki hringinn eins og ég hafði búist við, heldur fór yfir hringinn og beint í puttann. Ég leit bara á hann í hálfgerðu sjokki, fann hvernig hann bognaði. Puttinn var bara eins og Z í laginu. Mér brá og hljóp að sjúkraþjálfaranum en hélt samt rónni,“ sagði Martin sem fékk hjálp frá áhorfenda við að koma fingrinum aftur í lið.

„Það gekk illa að koma puttanum í lið, það tók alveg einhverjar 20 mínútur. Sjúkraþjálfarinn náði ekki að koma honum í lið þannig að það var kallað eftir hjálp úr stúkunni. Það kom þarna sjúkraliði sem bókstaflega reif puttann í lið aftur. Það var ekki mjög þægilegt, en það var þægilegt þegar hann small aftur í liðinn,“ sagði Martin.

„Ég hef oft lent í því að fá bolta framan á puttann og bólgnað upp en aldrei lent í því að fara úr lið. Það hafa flestir í liðinu lent í þessu og þeir gefa mér góð ráð. Þetta er vonandi ekkert alvarlegt,“ bætti hann við.

Unnið að því að koma puttanum aftur í lið.
Unnið að því að koma puttanum aftur í lið. mbl.is/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert