Pavel: Þetta er það sem refurinn gerir

„Mér fannst við vera einu skrefi á undan mestallan leikinn,“ sagði Pavel Ermolinski eftir að KR vann sigur á Grindavík í kvöld, 93:84, í fyrsta leiknum um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik.

KR byrjaði leikinn af krafti og komst í 16:2 en Grindvíkingar brugðust fljót við því og hleyptu KR-ingum ekki of langt fram úr sér.

„Við náðum aldrei að rífa okkur frá þeim. Við spiluðum fínan sóknarleik þar sem margir stigu upp og skoruðu, en það vantaði oft að ná upp „rönni“ í vörninni eins og við gerðum í sókninni. Það voru tækifæri til að slíta þá frá okkur en það er enginn ósigur að hafa bara unnið með 9 stigum hérna. Við tökum því bara fagnandi,“ sagði Pavel.

Aðspurður um þátt Darra Hilmarssonar í sigrinum, en Darri skoraði úr fimm þriggja stiga skotum í röð og klikkaði aðeins á einu slíku í leiknum, svaraði Pavel:

„Þetta er bara refurinn. Þetta er það sem hann gerir; læðist hljóðlátur um völlinn og kemur svo með einhverja sprengju. Það er frábært að hafa svona mann í liðinu, sem þegar á þarf að halda gerir bara hlutina.“

Nánar er rætt við Pavel í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert