Jóhann greindist með brjósklos

Jóhann Árni Ólafsson t.h. verður frá keppni næstu mánuði.
Jóhann Árni Ólafsson t.h. verður frá keppni næstu mánuði. Árni Sæberg

Körfuknattleiksmaðurinn Jóhann Árni Ólafsson er með brjósklos í baki og verður frá keppni næstu mánuðina. Er um að ræða mikla blóðtöku fyrir Grindvíkinga í Dominos-deildinni en Jóhann hefur verið einn af lykilmönnum liðsins undanfarin ár.

„Ég er með brjósklos auk þess sem taug er klemmd. Það er dágóður tími í að ég geti spilað. Ég hafði verið í miklum vandræðum vegna verkja í læri í allt haust og var að leita að skýringum. Ég ætlaði að haltra í gegnum þetta en það varð alls ekki raunin í þetta skiptið. Samkvæmt bjartsýnustu spám þá gæti ég kannski spilað í janúar eða febrúar en alla vega er ljóst að ég spila ekki fyrr en á nýju ári,“ sagði Jóhann Árni við Morgunblaðið í gærkvöldi og ítrekaði að erfitt væri að segja til um batann.

Jóhann mun að svo stöddu ekki fara í aðgerð vegna brjósklossins heldur er vonast eftir því að það gangi til baka. Hann gæti þó engu að síður verið á leiðinni í annars konar aðgerð. „Við myndatöku á bakinu kom í ljós sprunga í lífbeininu og það gæti kallað á aðgerð. Þau meiðsli eru væntanlega út af höggi sem ég fékk fyrir tveimur árum. Þau meiðsli gera þetta enn flóknara og hafa einnig áhrif á fótinn. Framundan er því mikil endurhæfing,“ útskýrði Jóhann og virtist frekar hissa á þessu öllu saman því hann hefur ekki misst af leik í meistaraflokki vegna meiðsla fyrr en nú. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert