Þráhyggjan skilaði Kobe loksins upp fyrir Jordan

Kobe Bryant.
Kobe Bryant. AFP

Karem Abdul-Jabbar og Karl Malone. Þetta eru einu mennirnir sem hafa skorað fleiri stig í NBA-deildinni í körfuknattleik frá upphafi heldur en Svarta mamban, LA Lakers goðsögnin Kobe Bryant.

Bryant tók fram úr engum öðrum en Michael Jordan um helgina en það er væntanlega rúsínan í pylsuendanum á glæstum ferli sem lokið hefur sínu mesta flugi.

Kobe hefur frá unga aldri haft Jordan sem fyrirmynd, og keppst við að komast á sama stall. Hann kann að hafa tekið fram úr Jordan á stigalistanum en fáir, ef einhverjir, efast um að sá síðarnefndi er sá besti frá upphafi. Jordan var einfaldlega einstakur, náði í sex NBA-meistaratitla og var alltaf kjörinn bestur (MVP) í úrslitunum. Hann vann þar að auki sín afrek á talsvert skemmri tíma en Kobe, sem er handhafi fimm meistarahringa. Þó að Bryant sé enn að skila 25 stigum að meðaltali í leik er hins vegar útilokað að hann bæti við titli í vetur með arfaslöku liði LA Lakers, og taki fram úr Jordan í þeim efnum.

Phil Jackson, sem þjálfaði báða leikmennina, skrifaði í bók sinni að Kobe væri heltekinn af áfergju í að taka við af Jordan sem sá allra besti frá upphafi. Það tekst honum ekki, þó að það hafi alltaf verið markmiðið.

Jordan á í raun stóran þátt í því að Kobe skuli um helgina hafa ýtt honum niður í 4. sætið á stigalistanum. Bryant skrifaði um það sjálfur eftir helgina að ef ekki hefði verið fyrir Jordan hefði lífið tekið aðra stefnu þegar hann var 12 ára gamall.

Sjá ítarlega umfjöllun um Kobe Bryant í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert