Skelltu meisturunum á útivelli

Russell Westbrook var í stuði með Oklahoma City Thunder í …
Russell Westbrook var í stuði með Oklahoma City Thunder í kvöld. AFP

Lið Oklahoma City Thunder heldur áfram að klífa stöðutöflu NBA-deildarinnar í körfuknattleik eftir slæma byrjun á tímabilinu og vann í kvöld góðan útisigur á meisturum San Antonio Spurs, 114:106. Sjötti sigur liðsins í röð og sá 14. í 30 leikjum á tímabilinu. San Antonio er hinsvegar með 18 sigra í 30 leikjum.

Erfiðleikar Thunder voru fyrst og fremst vegna meiðsla hjá Kevin Durant og Russell Westbrook og gengi liðsins breyttist um leið og þeir fóru að spila. Nú er Durant reyndar meiddur á ný en Westbrook hélt uppi fjörinu í San Antonio og skoraði 34 stig auk þess að eiga 11 stoðsendingar. Matt Bonner skoraði mest fyrir meistarana, 17 stig.

Washington Wizards vann New York Knicks á útivelli eins og við mátti búast en gengi þessara liða er eins og svart og hvítt það sem af er vetri. Lokatölur urðu 102:91.  Carmelo Anthony skoraði 34 stig fyrir New York sem hefur nú tapað 26 af 31 leik sínum á tímabilinu. John Wall skoraði 24 stig fyrir Washington sem er í þriðja sæti Austurdeildar með 20 sigra í 28 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert