Ragnar tók vel á pólska skrímslinu

Það styttist í stóru stundina hjá Ragnari Nathanaelssyni og félögum …
Það styttist í stóru stundina hjá Ragnari Nathanaelssyni og félögum í íslenska landsliðinu. mbl.is/Eva Björk

Finnur Freyr Stefánsson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í körfuknattleik, segir klaufaleg mistök liðsins í seinni hálfleik hafa reynst dýrkeypt í tapinu gegn Póllandi í kvöld, 80:65, á æfingamótinu í Póllandi fyrir Evrópumótið sem hefst eftir rúma viku.

„Þeir byrjuðu sterkir en við náðum að koma okkur í gegnum það. Logi Gunnarsson kom mjög sterkur inn af bekknum og þegar sóknirnar gengu ekki upp þá setti hann niður stór skot og kom okkur í gírinn,“ sagði Finnur, en Pólverjar voru einu stigi yfir í hálfleik.

„Lokin á fyrri hálfleiknum voru fín og við fengum tækifæri til að komast yfir. Í byrjun seinni hálfleiks vorum við klaufar og misstum svolítið boltann, og það var kannski saga seinni hálfleiks. Við fengum hraðar sóknir í bakið eftir að hafa tapað boltanum og annað slíkt. Við vorum til dæmis fimm stigum undir þegar einhverjar fimm mínútur voru eftir en töpuðum boltanum og fengum þrist í andlitið. Þetta var frekar súrt því mér fannst við ekkert spila vel heldur geta gert mikið betur,“ sagði Finnur, og tók undir að það væri ágætt að hafa átt í fullu tré við pólska liðið sem leikur í A-riðli á Evrópumótinu.

Gátum gert mikið betur

„Það er mjög fínt að spila svona, án Pavels [Ermolinski] og Jóns [Arnórs Stefánssonar] að miklu leyti, enda styttist í mótið og við verðum að gjöra svo vel og nýta okkar tækifæri. Ég hef trú á því að þegar á hólminn verður komið fari skotin niður, og við búum til hörkuflotta leiki. Við finnum að við eigum alveg roð í þessi lið, og getum alveg unnið þau. Sjálfstraustið og trúin í liðinu eykst með hverjum degi,“ sagði Finnur, sem hrósaði sérstaklega hinum hávaxna Ragnari Nathanaelssyni:

„Logi og Ægir komu mjög flottir inn af bekknum, og Ragnar átti sínar bestu mínútur í undirbúningnum hingað til. Hann tók vel á pólska skrímslinu Marcin Gortat [leikmanns Washington Wizards í NBA-deildinni]. En það var súrt að tapa þessu því við gátum gert mikið betur og gáfum þeim auðveldar körfur með því að tapa boltanum of auðveldlega,“ sagði Finnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert