23 stig Jóns dugðu ekki gegn Þjóðverjum

Þýskaland og Ísland áttust við í fyrsta leiknum í B-riðli lokakeppni Evrópumóts karlalandsliða í körfuknattleik í Mercedes Benz höllinni í Berlín í dag og höfðu Þjóðverjar betur 71:65. Var þetta fyrsti leikurinn hjá íslensku landsliði á stórmóti í körfubolta. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu frá Berlín hér á mbl.is. 

Gríðarlega stemning var á leiknum en rúmlega 12 þúsund manns voru í höllinni. Þýska liðið mun greinilega fá góðan stuðning en vel heyrðist þó í tæplega þúsund íslenskum áhorfendum inn á milli. 

Sigur Þjóðverja var á heildina litið sanngjarn. Þeir komu sér upp góðu forskoti í öðrum leikhluta eftir nokkuð jafnan leik í fyrsta leikhluta. Höfðu þeir yfir 41:26 að loknum fyrri hálfleik. Ekki virtist vera útlit fyrir að íslenska liðið nægði að ógna sigri Þjóðverja í sínum fyrsta leik á stórmóti. Sú varð þó ekki raunin því í síðasta leikhlutanum fóru hlutirnir að gerast hjá Íslendingum. Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson setti niður tvo þrista á skömmum tíma og Hörður Axel Vilhjálmsson og afmælisbarnið Logi Gunnarsson voru mun aðgangsharðari en í fyrri hálfleik. Þegar tvær mínútur voru eftir hafði munurinn minnkað úr sextán stigum niður í sex stig 69:63. Ísland fékk tækifæri til að minnka muninn enn frekar. Hörður og Pavel Ermolinskij freistuðu þess báðir að minnka niður í þrjú stig með þriggja stiga skoti en hittu ekki. 

Íslendingar gerðu mörg mistök í leiknum og Þjóðverjar svo sem líka. Skrifast það væntanlega á spennustigið í fyrsta leiknum. Íslendingar nýttu vítaskot sín til að mynda illa í leiknum og það geta okkar menn einfaldlega ekki leyft sér í þessari keppni. Hittu okkar menn aðeins úr 12 skotum af 22 sem er allt of lítið en 7 af 25 þriggja stiga skotum fóru niður sem er nær því að vera í lagi.

Hrósa ber hins vegar íslenska liðinu fyrir baráttuandann enda tókst þeim að búa til spennu úr leik þar sem þeir voru lengi vel í vandræðum. Auk þess bendir leikurinn til þess að varnarleikur íslenska liðsins sé nokkuð góður. Þar sem liðið er lágvaxnara en önnur í mótinu þá þurfa menn að hjálpast að undir körfunni og þá skapast af og til opin þriggja stiga skot. Við því er lítið að gera. 

Jón Arnór Stefánsson sýndi í hvaða gæðaflokki hann er og skoraði 23 stig en gaf auk þess 5 stoðsendingar. Var hann langstigahæstur í íslenska liðinu. Dirk Nowitzki, gamli samherji hans hjá Dallas, gerði 15 stig og var mjög mikilvægur í síðari hálfleik eftir rólega byrjun. 

Hlynur Bæringsson og Haukur Helgi Pálsson skoruðu 12 stig hvor og Hörður Axel Vilhjálmsson var með 11 stig. Martin Hermannsson gerði 3 stig og þeir Logi Gunnarsson og Jakob Örn Sigurðarson 2 stig hvor. Hlynur tók 8 fráköst en þeir Pavel Ermolinskij og Hörður Axel Vilhjálmsson 6 hvor.  Hjá Þjóðverjum gerði Dennis Schröder leikmaður Atlanta Hawks 15 stig og var mikilvægur. Hann og Nowitzki voru stigahæstir Þjóðverja. 

40. mín: Leiknum er lokið. Þýskaland vinnur sanngjarnan sigur en Íslendingar gáfust aldrei upp og náðu að hleypa smá spennu í leikinn þegar nokkrar mínútur voru enn eftir. 

40. mín: Staðan er enn 69:63 fyrir Þýskaland. Rúmar 30 sek eftir og Ísland með boltann. Síðustu sóknir Íslands hafa runnið út í sandinn. Raunar hjá báðum liðum. 

38. mín: Staðan er 69:63 fyrir Þýskaland. Hlynur með þrist og íslensku áhorfendurnir fagna gífurlega. Í framhaldinu henda Þjóðverjar boltanum út af og taka leikhlé. Hvað er að gerast hérna? Er þetta möguleiki eftir allt saman. 2 mín og 23 sek eftir. 

36. mín: Staðan er 69:59 fyrir Þýskaland. 10 stiga munur og sléttar 4 mínútur eftir. Hlynur skoraði aftur þriggja stiga körfu og Jón er kominn með 23 stig og lætur sér ekki muna um að skamma starfsmennina í leiðinni sem moppa ekki gólfið undir körfu Íslands. 

34. mín: Staðan er 61:50 fyrir Þýskaland. Tæpar sjö mínútur eftir. Hlynur var að setja niður þrist yfir Nowitzki. Fyrirliðinn fagnar og setur hnefann upp í loft. Jón er kominn með 19 stig í leiknum. 

32. mín: Staðan er 61:45 fyrir Þýskaland. Afmælisbarnið Logi Gunnars var að skora sín fyrstu stig með góðu gegnumbroti. 

30. mín: Staðan er 59:43 fyrir Þýskaland fyrir síðasta leikhlutann. Þetta er nokkuð blóðugt því Ísland minnkaði muninn niður í sjö stig 48:41. Hörður og Pavel fengu báðir þriggja stiga skot til að minnka þá muninn niður í fjögur stig en þau rötuðu ekki rétta leið. Þá gáfu Þjóðverjar aftur í og eru með þægilegt forskot. Gegn andstæðingum sem þessum þá verða okkar menn að nýta þau tækifæri sem gefast. 

26. mín: Staðan er 48:39 fyrir Þýskaland. Hörður mætir ákveðinn til leiks í síðari og hefur á þeim tíma skorað sjö stig en var með eitt í fyrri hálfleik. Munurinn er kominn undir tíu stig. 

24. mín: Staðan er 48:34 fyrir Þýskaland. Þetta er erfitt fyrir okkar menn eins og við var að búast. Þeir ná aldrei rispu þar sem þeir saxa muninn niður að ráði. Hörður Axel hefur tekið við sér í upphafi seinni og skorað tvær körfur. 

22. mín: Staðan er 43:30 fyrir Þýskaland. Íslendingar skoruðu fyrstu fjögur stigin í seinni. Áhyggjurnar af villuvandræðunum voru ekki ástæðulausar, því Haukur er kominn með 4 villur og Jón 3. Báðir algerir lykilmenn. 

20. mín: Hálfleikur. Jón Arnór skoraði 11 stig í fyrri hálfleik og sýndi hvers hann er megnugur. Haukur Páls er með 8 stig og hefur sett niður tvo þrista. Hlynur og Martin eru með 3 stig og Hörður Axel er með 1 stig. Hlynur og Pavel eru með flest fráköst eða 3 hvor og Jón Arnór er með 2 stoðsendingar. 

20. mín: Fyrri hálfleik er lokið. Staðan er 41:26 fyrir Þýskaland. Varnarleikurinn hélt ágætlega lengi vel en illa gengur að skora, nema þegar Jón tekur sig til. Martin skoraði þriggja stiga körfu sem var ánægjulegt að sjá. Hvergi banginn strákurinn. Íslenska liðið hefur gert of mörg mistök til að leikurinn geti verið jafnari. Of margir tapaðir boltar og of mörg sóknarfráköst Þjóðverja. Þetta kemur mér svo sem ekki á óvart þegar um er að ræða fyrsta leik á stórmóti. Menn ráða illa við þær aðstæður en okkar menn sjóast þegar fyrsti leikur er yfirstaðinn. 

15. mín: Staðan er 28:19 fyrir Þýskaland. Nú þarf íslenska liðið að passa sig að missa heimamenn ekki of langt frá sér. Hættuleg staða. Pavel nær sér engan veginn á strik og hefur gert nokkur mistök. Spennustigið hefur þar líklega sín áhrif en margir aðrir eru í ágætum takti við leikinn. 

13. mín: Staðan er 24:19 fyrir Þýskaland. Okkar menn eru ekki langt undan en tekst ekki að komast yfir. 

11. mín: Staðan er 20:17 fyrir Þýskaland. Jón gerir fyrstu þrjú stigin í seinni. Gegnumbrot, brotið á honum en hann hitti og setti vítið niður. Jón virðist vera besti bakvörðurinn á vellinum miðað við það sem ég hef séð í fyrri hálfleik. 

10. mín: Staðan er 20:14 fyrir Þýskaland. Fyrsta leikhluta er lokið. Dirk Nowitzki skoraði síðustu körfuna í leikhlutanum. Íslendingar þurfa að spila betur en þetta er ekki svo slæmt miðað við hversu hátt spennustigið hlýtur að vera í upphafi fyrsta leiks. Varnarleikurinn er góður en Jón og Haukur báðir með 2 villur sem er alvarlegt. 

10. mín: Staðan er 18:14 fyrir Þýskaland. 30 sekúndur eftir af leikhlutanum. Fimm stig í röð hjá Íslendingum. Gott gegnum brot hjá Jóni og Haukur fylgdi því á eftir með þriggja stiga körfu. Vel gert. 

8. mín: Staðan er 18:9 fyrir Þýskaland. Erfiður leikkafli fyrir okkar menn sem eru í vandræðum í sókninni. Eru þó komnir með skotrétt en það hefur nýst illa. Hörður hitti úr öðru af línunni og Pavel klikkaði á báðum. 

5. mín: Staðan er 10:8 fyrir Þýskaland. Jón er kominn með 2 villur og skiptir við Loga. Alvarlegt mál. Hlynur, Haukur, Jón, Hörður og Pavel byrjuðu inn á. Hlynur er búinn að skora þriggja stiga körfu sem er vel þegið. 

3. mín: Staðan er 7:5 fyrir Þýskaland. Jón Arnór skoraði fyrstu körfuna með laglegu gegnumbroti og Haukur setti síðan niður þrist. 

0. mín: Liðin voru kynnt rétt í þessu. Allt ætlaði gerasamlega um koll að keyra í höllinni þegar Dirk Nowitzki var kynntur til leiks. 

0. mín: Ísland vann sig inn í keppnina í fyrra eftir undankeppni þar sem liðið varð í 2. sæti í sínum riðli. Ísland var í þriðja styrkleikaflokki en vann báða leikina gegn Bretum sem voru í öðrum styrkleikaflokki og léku á síðasta EM. Þá tapaði liðið eftir jafna leiki gegn Bosníu sem gerði það að verkum að liðið var eitt þeirra sem höfðu hvað bestan árangur þeirra sem urðu í 2. sæti í riðlunum. 

0. mín: Logi Gunnarsson sem leikur sinn 117. A-landsleik gegn Þjóðverjum á afmæli í dag. Logi er 34 ára í dag og hefur leikið flesta landsleiki af þeim sem nú eru í íslenska hópnum. Er hann sá sjöundi leikjahæsti frá upphafi.  

Lið Þýskalands: Lo Maodo, Niels Giffey, Alex King, Heiko Schaffartzik, Karsten Tadda, Tibor Pleiss, Robin Benzing, Dirk Nowitzki, Dennis Schröder, Paul Zipser, Anton Gavel, Johannes Voigtmann. 

Lið ÍSLANDS: Martin Hermannsson, Axel Kárason, Ragnar Nathanaelsson, Jakob Örn Sigurðarson, Hlynur Bærinsson (fyrirliði),  Jón Arnór Stefánsson, Helgi Már Magnússon, Hörður Axel Vilhjálmsson, Logi Gunnarsson, Pavel Ermolinskij, Haukur Helgi Pálsson, Ægir Þór Steinarsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert