KR í úrslit þriðja árið í röð

Michael Craion með boltann í Vesturbænum í kvöld.
Michael Craion með boltann í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Eggert

KR tryggði sér sæti í úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik með 92:64 sigri sínum gegn Njarðvík í oddaleik liðanna í DHL-höllinni í kvöld. KR mætir Haukum í úrslitaeinvíginu. 

Jafnt var á öllum tölum í fyrsta leikhluta, en í öðrum leikhluta tóku KR-ingar frumkvæðið og KR hafði 14 stiga forskot í hálfeik.

Leikmönnum KR héldu engin bönd í þriðja leikhluta og hver þriggja stiga karfan á fætur annarri varð til þess að munurinn jókst í 33 stig. KR hélt þeirri forystu til loka leiksins og fór með 28 stiga sigur af hólmi.

Michael Craion var stigahæstur í liði KR með 20 stig, en Jeremy Atkinsson var atkvæðamestur í liði gestanna með 22 stig.

KR mætir Haukum í úrslitaeinvíginu, en liðin mætast í fyrsta leik í DHL-höllinn á þriðjudaginn kemur.  

40. Leik lokið með 92:64 sigri KR sem mætir Haukum í úrslitum. 

38. KR-Njarðvík, 86:56. Darri, Helgi Már og Brynjar Þór fá heiðursskiptingu og stuðningsmenn KR klappa þeim lof í lofa. 

37. KR-Njarðvík, 86:56. Brynjar Þór Björnsson heggur á hnútinn fyrir KR með þriggja stiga körfu. KR heldur muninum í um það bil 30 stigum. Tíminn fer að vera ansi naumur fyrir Njarðvík. 

34. KR-Njarðvík, 78:54. Njarðvík byrjar leikhlutann betur og nær áhlaupi. KR-ingar eru hins vegar með fulla stjórn á hlutunum ennþá allavega. Michael Craion gerir afar vel þegar hann ver skot Hauks Helga Pálssonar. KR tekur leikhlé. 

30. Þriðja leikhluta er lokið. KR-Njarðvík, 76:45. KR hefur ekkert slakað á klónni og bætt í forystuna jafnt og þétt. Afar hæpið að Njarðvík komi til baka, en þeir unnu þó upp mikinn mun í öðrum leik liðanna í Njarðvík. 

28. KR-Njarðvík, 72:39. KR heldur áfram að auka muninn og fátt í spilunum hjá Njarðvík eins og stendur. Skotin eru ekki að detta hjá Njarðvík og sóknarleikur KR gengur eins og vel smurð vél. Darri Hilmarsson skorar þriggja stiga körfu fyrir KR og eykur muninn í 27 stig. Helgi Már setur niður þriggja stiga skot og KR hefur 30 stiga forskot. Björn Kristjánsson tekur þátt í þriggja stiga sýningu KR liðsins og munurinn er 33 stig. 

24. KR-Njarðvík, 59:39. Liðin skiptust í upphafi leikhlutans sem dugar Njarðvíkingum engan veginn. Það er þó enn nægur tími fyrir þriðja áhlaup Njarðvíkur í einvíginu. Brynjar Þór Björnsson kemur KR 20 stigum yfir með þriggja stiga körfu. Njarðvík tekur leikhlé. 

21. KR-Njarðvík, 47:33. Jeremy Atkinson skorar fyrsta stig seinni hálfleiksins fyrir Njarðvík og Brynjar Þór brýtur ísinn fyrir KR með þriggja stiga körfu. 

20. Hálfleikur. KR-Njarðvík, 47:33. Leikurinn var í járnum í upphafi leiks, en KR tók að síga fram úr í öðrum leikhluta. Þriggja stiga nýting KR liðsins er góð, en liðið hefur skorað úr 10 af 17 þriggja stiga skotum sínum. Njarðvík hefur tvívegis komið til baka í einvíginu og því þurfa stuðningsmenn hvorki að örvænt né leggja árar í bát.   

Michael Craion er stigahæstur í liði KR með 13 stig, en Jeremy Atkinson hefur verið atkvæðamestur í liði gestanna frá Njarðvík sömuleiðis með 13 stig. 

18. KR-Njarðvík, 47:30. Darri Hilmarsson setur niður þriggja stiga skot og kveikir í stuðningsmönnum KR. Stemmingin er með KR eins og sakir standa. Oddur Rúnar setur niður þriggja stiga körfu og lagar stöðuna fyrir Njarðvík, en Helgi Már svarar í sömu mynt fyrir KR. Ólafur Helgi skorar síðan þriggja stiga körfu fyrir Njarðvík og Pavel svarar hinum megin fyrir KR. Pavel bætir um betur og setur niður annað þriggja stiga skot. 

13. KR-Njarðvík, 30:20. Snorri Hrafnkelsson hefur komið sterkur inn í KR liðið í öðrum leikhluta og skorað sex stig. Snorri hefur þar að auki leikið góða vörn. KR að leika vel þessa stundina. 

10. Fyrsta leikhluta er lokið. KR-Njarðvík, 22:17. Björn Kristjánsson kom með góða innkomu inn í KR liðið og setti niður þriggja stiga körfu. Verulega góð þriggja stiga nýting hjá KR liðinu, en liðið hefur skorað úr fjórum af sjö þriggja stiga skotum sínum. Það er jafnt á öllu tölum og útlit fyrir jafnan og spennandi leik. 

7. KR-Njarðvík 14:13. Helgi Már minnkar muninn fyrir KR með þriggja stiga körfu og Logi Gunnarsson svarar í sömu mynt fyrir Njarðvík. Darri Hilmarsson vill ekki vera minni maður og setur niður þriggja stiga körfu og Brynjar Þór skorar í kjölfarið og kemur KR yfir. 

5. KR-Njarðvík, 6:10. Jeremy Atkinson skorar fyrstu fjögur stig leiksins fyrir Njarðvík. Michael Craion svarar fyrir KR. Brynjar Þór kemur KR yfir með þriggja stiga körfu og Haukur Helgi svarar hinum megin fyrir Njarðvík. Michael Craion kemur KR aftur yfir með sniðskoti. Haukur Helgi skorar þriggja stiga körfu og það er brotið á honum og hann fær vítaskot sem hann setur niður. 

1. Leikurinn er hafinn. Njarðvík vinnur uppkastið. 

Byrjunarlið KR: Pavel, Helgi Már, Craion, Darri og Brynjar Þór. 

Byrjunarlið Njarðvíkur: Oddur Rúnar, Logi, Haukur Helgi, Jeremy Atkinson og Maciej Baginski. 

0. Pavel tekur ekki þátt í upphitun KR liðsins og er einn síns liðs að teygja. Það eykur ekki á líkurnar á hann spili í þessum leik. Komið aðeins meira tempó í upphitunina hjá Pavel og hann er greinilega að athuga hvort að kálfinn haldi. 

0. Pavel Ermolinskji, leikstjórnandi KR, tognaði í kálfa fyrir síðasta leik liðanna í einvíginu og lék ekkert með liðinu í þeim leik. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann ætti síður von á því að Pavel væri klár í tæka tíð fyrir leikinn í dag. 

0. Einar Bollason, fyrrum leikmaður KR, er að sjálfsögðu mættur á svæðið með öldungaráði KR sem situr ávallt ofarlega í stúkunni og veitir leikönnum KR liðsins góð ráð á meðan á leiknum stendur. 

0. Hörður Axel Vilhjálmsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er mættur á svæðið. Spurning með hvoru liðinu hann heldur í þessum leik. 

0. Páll Sævar Guðjónsson, Röddin, sér um að koma stuðningsmönnum liðanna í góðan gír með fjölbreyttum og skemmtilegum lagalista sínum. 

0. Fólk streymir að hér í DHL-höllina og það er orðið þétt setið í stúkunni þegar tæpur klukkutími er að í að leikurinn hefjist. 

0. Sömu lið mættust í oddaleik í undanúrslitum á sama stað í fyrra. Þá hafði KR betur eftir tvíframlengdan og spennuþrunginn leik. 

0. Það eru um það bil þrjú ár síðan KR tapaði síðast einvígi í úrslitakeppninni, tíu ár síðan Njarðvík vann KR í DHL-höllinni og níu ár frá því að Njarðvík lék síðast til úrslita í efstu deild karla í körfuknattleik. Tölfræðin er því ekki á bandi með Njarðvík í þessum leik, en blessunarlega fyrir þá hefur tölfræðin ein og sér aldrei gert gæfumuninn í íþróttum. 

Það ræðst í kvöld hvort KR eða Njarðvík mæta Haukum …
Það ræðst í kvöld hvort KR eða Njarðvík mæta Haukum í úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert