Westbrook þrumar

Russell Westbrook skorar í leiknum í Oakland í nótt.
Russell Westbrook skorar í leiknum í Oakland í nótt. AFP

Undanúrslitin í NBA deildinni hófst í nótt með fyrsta leik Golden State Warriors og Oklahoma City Thunder hér í Kaliforníu, á meðan Toronto Raptors verða nýjasti málsverður Cleveland Cavaliers austanmegin seint í kvöld. 

Keppnin í ár hefur endurspeglað það hæfnisdjúp sem er á milli deildanna tveggja. Í Austurdeildinni hefur Cleveland algera yfirburði, en vestanmegin er hvert liðið öðru betra. 

Fyrsti leikur meistara Golden State og Oklahoma City einkenndist af miklum hraða og atorku beggja liða, en góð þriggja-stiga hittni Warriors leiddi til 60:47 stöðu í hálfleik fyrir heimamenn. Golden State hafði unnið alla 37 leiki sína þegar liðið hafði meira en níu stiga forskot í hálfleik á þessu keppnistímabili. Russell Westbrook tók leikinn hinsvegar í sínar hendur í þriðja leikhlutanum með 19 stig fyrir Thunder þegar heimamenn urðu kærulausir í sínum leik. Gestirnir náðu síðan forystu í fyrsta sinn í upphafi fjórða leikhlutans og allt var nú í járnum. 

Það sem eftir lifði leiksins var Thunder í forystunni og í lokin var töluverður barningur, en Oklahoma City hafði það á endanum 108:102. 

Það var fyrst og fremst stórleikur Russell Westbrook sem skóp sigur Thunder í þessum leik. Hann skoraði 24 af 27 stigum sínu í seinni hálfleiknum þegar hann er í slíku stuði er erfitt að hemja Oklahoma City. 

„Við vorum kærulausir í seinni hálfleiknum og tókum allt of mikið af fljótum skotum í sókninni í lokaleikhlutanum,” sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State í leikslok. 

Toppliðin í hörkuslag 

Bæði þessi lið eru annars vel stemmd í upphafi þessarar leikseríu og mun hún eflaust verða mjög jöfn. 

Golden State virtist hafa rúllað auðveldlega inn í úrslitarimmu Vesturdeildarinnar eftir auðvelda 4:1 sigra á Houston og Portland í fyrstu tveimur umferðunum. Sigurinn gegn Portland var hinsvegar erfiðasti 4:1 sigur í sögu úrslitakeppninnar. Portland var með í öllum leikjunum í lokaleikhlutanum og aðeins frábær leikur Stephen Curry í síðustu tveimur leikjunum gerði gæfumuninn fyrir meistarana.

„Þeir hafa svo sannarlega gert okkur greiða með því að neyða okkur til að gefa allt sem við áttum til að sigra. Það mun koma okkur til góða í næstu umferð,” sagði Klay Thompson eftir síðasta leikinn gegn Portland um daginn. 

Oklahoma City hefur tekið framförum – bæði í þessari úrslitakeppni og yfir höfuð frá fyrri árum. Liðið er nú í úrslitum Vesturdeildar í fjórða sinn á fimm árum og eina árið sem liðinu mistókst var þegar Westbrook meiddist í miðri úrslitakeppninni 2013. Bæði hann og Durant eru nú heilir heilsu og munu eflaust gera Warriors lífið leitt í næstu leikjum. 

Thunder hefur einnig bætt varnarleik sinn eftir að Billy Donovan tók við þjálfarastöðunni og það mun koma liðinu vel í þessari rimmu. Liðið sýndi einnig meiri styrkleika í lokaleikhlutum leikjanna gegn San Antonio – nokkuð sem hefur háð Thunder undanfarin ár í undanúrslitunum eða lokaúrslitunum. 

Bæði lið mæta hér án meiðsla lykilleikmanna, þannig að þetta verður eflaust sex til sjö leikja rimma. Golden State verður hinsvegar að vinna annan leik liðanna í nótt – annars tekur Oklahoma City þetta í sex leikjum eins og liði er nú að spila. 

Spáin: Golden State hefur þetta í sjö leikjum.

Cleveland tekur Toronto í nefið 

Í Austurdeildinni – annarri deild evrópskt séð – náði Toronto Raptors loks að klára leikseríuna gegn Miami Heat eftir sjö leiki um síðustu helgi.

Raptors náði því að vera næsta fórnarlamb Cleveland Cavaliers í úrslitarimmu Austurdeildarinnar. Toronto mun reyna sitt besta gegn vel hvíldu liði Cleveland, en það mun ekki skipta nokkru máli. Liðið á ekki minnsta tækifæri á sigri í leikseríu liðanna og mun verða heppið ef það nær einum sigri hér. LeBron James hefur nú unnið sautján leikseríur í röð í úrslitakeppni Austurdeildar með Cleveland og Miami og hann mun ekki allt í einu taka upp á því að tapa hér. 

Allt bendir því til sömu lokaúrslitanna og í fyrra, en eitthvað er undirritaður hræddur um að þeir Westbrook og Durant eigi eftir að hafa sitt að segja áður en yfir lýkur í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Klay Thompson reynir skot fyrir Golden State í leiknum í …
Klay Thompson reynir skot fyrir Golden State í leiknum í nótt. AFP
LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers eiga sigur vísan …
LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers eiga sigur vísan í einvíginu við Toronto Raptors. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert