Los Angeles Lakers fær liðsstyrk

Luol Deng (t.v.) er kominn til Lakers.
Luol Deng (t.v.) er kominn til Lakers. AFP

Forráðamenn Los Angelels Lakers vinna nú hörðum höndum að því að styrkja liðið fyrir komandi tímabil í NBA-körfuboltanum. Nýjasti leikmaður stórveldisins er framherjinn Luol Deng sem kemur frá Miami Heat.

Deng er 31 árs gamall og skoraði 12,3 stig að meðaltali með Heat í fyrra. Hann er með breskt ríkisfang og hefði því verið löglegur með liði Breta sem Ísland mætti í undankeppni Eurobasket 2105 en þá ákvað kappinn sem betur fer að gefa ekki kost á sér í verkefnið.

Miami Heat hafa því þurft að sjá á eftir tveimur burðarásum á skömmum tíma en Dwayne Wade fór frá liðinu til Chicago Bulls fyrir skömmu.

Luol Deng hefur leikið 13 tímabil í NBA-deildinni en fyrstu 10 tímabilin lék hann með Chicago Bulls. Hann þótti einn fjölhæfasti framherji deildarinnar um nokkurra ára skeið og komst tvívegis í stjörnulið austurstrandarinnar.

Lakers þurfa svo sannarlega á liðsstyrk að halda en stórstjarnan Kobe Bryant er hættur að leika með liðinu. Lakers sömdu nýlega við Rússann Timofey Mozgov og Spánverjann Jose Calderon og þótti mörgum þeir samningar heldur metnaðarlausir hjá þessu sigursæla liði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert