Haukur búinn að semja við franskt lið

Haukur Helgi í leik með Njarðvík gegn KR.
Haukur Helgi í leik með Njarðvík gegn KR. mbl.is/Styrmir Kári

Körfuknattleiksmaðurinn Haukur Helgi Pálsson er búinn að semja við franska B-deildarliðið Rouen og mun því ekki leika með Njarðvík í Dominos-deild karla á næstu leiktíð. Þetta kemur fram á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.

Haukur, sem er 24 ára gamall, var búinn að semja við Njarðvík um að leika áfram með liðinu en hann lék með Njarðvíkingum á síðasta tímabili. Í samningnum var klásúla þess efnis að hann gæti farið frá Njarðvík ef tilboð kæmi að utan.

Haukur greindi frá því í Morgunblaðinu í vikunni að honum hefði borist tilboð frá franska liðinu á mánudaginn. Þá kom einnig fram að hann hefði hafnað tilboði frá öðru frönsku liði fyrr í sumar. 

Haukur var með 17,9 stig, 7,5 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik í Dominos-deildinni á síðasta tímabili. Hann var einnig valinn besti leikmaður deildarinnar á lokahófi KKÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert