Skallagrímur semur við Eyjólf Ásberg

Eyjólfur Ásberg Halldórsson og Haraldur Már Stefánsson, verkefnisstjóri körfuknattleiksdeildar Skallagríms.
Eyjólfur Ásberg Halldórsson og Haraldur Már Stefánsson, verkefnisstjóri körfuknattleiksdeildar Skallagríms. Ljósmynd/Skallagrímur

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við Eyjólf Ásberg Halldórsson fyrir komandi tímabil þar sem Borgnesingar leika á ný í úrvalsdeild karla, Dominos-deildinni.

Eyjólfur er fæddur árið 1998 og er uppalinn í KR en kemur í Skallagrím frá ÍR þar sem hann lék á síðastliðnu tímabili. Eyjólfur hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og var lykilleikmaður U18 ára liðs Íslands á Evrópumótinu nú í sumar.

Nú í vor varð Eyjólfur Íslandsmeistari með ÍR í drengjaflokki þar sem hann var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins með 24 stig, 13 fráköst og 3 stoðsendingar. Eyjólfur er rúmlega 190 cm hár og fjölhæfur leikmaður sem getur spilað í nánast öllum stöðum á vellinum. 

Eyjólfur mun flytja í Borgarnes og stunda nám við Menntaskóla Borgarfjarðar á komandi vetri.
Með þessari ráðningu er lið Skallagríms fullmannað fyrir átökin í vetur að því er fram kemur hjá körfuknattleiksdeild Skallagríms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert