Munum reyna að keyra upp tempóið

Hlynur Bæringsson er spenntur fyrir leik íslenska liðsins gegn Kýpur …
Hlynur Bæringsson er spenntur fyrir leik íslenska liðsins gegn Kýpur í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við eigum fína möguleika á að komast áfram í lokakeppnina og við getum farið áfram á ýmsan hátt. Þetta er enn í okkar höndum þrátt fyrir tapið gegn Sviss og það er gott að eiga tvo heimaleiki eftir,“ sagði Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, í samtali við mbl.is, en íslenska liðið mætir Kýpur í næstsíðustu umferð í undankeppni Evrópumótsins 2017 í Laugardalshöllinni klukkan 20.15 í kvöld. 

„Þeir eru með líkamlega sterka og mjög seiga leikmenn. Þó svo að þeir séu hærri og mögulega líkamlega sterkari á ákveðnum stöðum þá ráðum við alveg við það. Við erum svo með okkar leiðir til þess að tvídekka og hjálpa hvor öðrum. Við vorum of lengi í gang og keyrðum hraðann of seint upp að mínu mati í Kýpur. Við verðum að byrja leikinn af fullum krafti og halda hraðanum háum,“ sagði Hlynur aðspurður um hvernig heillavænlegast væri að íslenska liðið myndi spila í kvöld.

Ísland hafði betur í fyrri leik liðanna í Níkósíu, höfuðborg Kýpur og sigur í kvöld kemur liðinu í góða stöðu. Ísland er í öðru sæti riðilsins fyrir leikinn gegn Kýpur, tveimur stigum á eftir Belgíu sem trónir á toppi riðilsins og einu stigi á undan Sviss og Kýpur sem sitja í þriðja og fjórða sæti riðilsins. Fyrsta sætið veitir þátttökurétt í lokakeppninni auk þeirra fjögurra liða með bestan árangur í öðru sæti í riðlunum sjö í undankeppninni.

„Við reynum bara að undirbúa okkur best fyrir þá leiki sem framundan eru. Það er best að hugsa bara um okkur sjálfa og taka einn leik fyrir í einu. Ég væri til í að keyra upp tempóið í leiknum gegn Kýpur. Við erum með kvikari lið en þeir að mínu mati. Þeir eru hins vegar með reynslumikið og klókt lið. Ég tel að hraður og skynsamur leikur verði lykillinn að sigri okkar í þessum leik. Við erum spenntir fyrir leiknum og hlökkum til leiksins,“ sagði Hlynur enn fremur um hvernig íslenska liðið muni nálgast leikinn í kvöld. 

Leikur Íslands og Kýpur í kvöld verður í beinni textalýsingu á mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert