„Varnarleikurinn var lykilatriði í dag“

Berglind Gunnarsdóttir sendir boltann í leiknum í kvöld.
Berglind Gunnarsdóttir sendir boltann í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

„Það er mjög gott að enda undankeppnina á sigri. Við náðum að rífa okkur upp eftir síðasta leik. Þetta var gaman, flott stemmning og akkúrat eins og við vildum enda þetta,“ sagði Berglind Gunnarsdóttir, landsliðskona í körfubolta, eftir 65:54 sigur liðsins á Portúgal í lokaleik undankeppninnar í Evrópumótinu í kvöld.

Þetta var annar sigur liðsins í undankeppninni og hafnaði liðið því í 3. sæti riðilsins en hinn sigurinn kom gegn sterku liði Ungverjalands í febrúar.

„Við vorum svolítið seinar í gang. Við erum enn að slípa sóknarleikinn og það hafa verið miklar breytingar á liðinu eins og flestir vita. Við vorum smá ryðgaðar fyrst en svo kom þetta. Hallveig kemur inn af bekknum og setur einhver sjö stig í röð, þetta gaf okkur byr,“ sagði hún enn fremur.

„Við náum að halda þeim í 54 stigum sem er mjög gott. Varnarleikurinn var klárlega lykilatriði í dag. Við byrjuðum í maður á mann en fórum í svæði og héldum því út leikinn. Þær fengu stundum opin skot og þau voru ekki að detta hjá þeim. Þær vilja leita inn í teiginn en það virkaði ekki í dag hjá þeim.“

Miklar breytingar hafa verið á landsliðinu síðustu mánuði en Helena Sverrisdóttir er ófrísk og þá var Pálína Marie Gunnlaugsdóttir meidd. Nokkrar stelpur eru þá í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og var því ansi ungu liði stillt upp í kvöld.

„Við vorum með nánast nýtt í byrjunarleik á móti þeim í Portúgal sem við töpuðum og erum með glænýtt núna. Við náum þessum sigri, sem er mjög gott, sem segir okkur það að við erum með breiðan hóp. Við eigum fullt af leikmönnum inni en við náum að spila mjög vel saman í dag og þetta er liðið sem við erum með í dag,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert