Þór vann í Njarðvík - ÍR vann spennuleik

Jón Arnór Sverrisson gegn Ragnari Helga Friðrikssyni í Njarðvík í …
Jón Arnór Sverrisson gegn Ragnari Helga Friðrikssyni í Njarðvík í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Þór frá Akureyri hélt áfram að gera góða hluti í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið sótti tvö stig til Njarðvíkur, með 105:94-sigri. ÍR vann þriðja sigur sinn í vetur en liðið lagði Þór Þorlákshöfn að velli í spennuleik, 74:72. Tindastóll vann Skallagrím 97:75 og Haukar unnu Snæfell, 95:78.

Umfjöllun Mbl.is um stórleik Stjörnunnar og Grindavík er hægt að sjá hér. Keflavík og KR mætast í lokaleik 9. umferðarinnar annað kvöld.

Spennan hélst fram á síðustu sekúndu í Seljaskóla þar sem Þórsarar fengu tækifæri til að jafna metin gegn ÍR, eða stela sigrinum, eftir að heimamenn höfðu haft frumkvæðið nær allan leikinn. Tobin Carberry missti hins vegar boltann frá sér á ögurstundu. Þór Akureyri tryggði sér sigurinn í Njarðvík með frábærum lokafjórðungi, en það var aldrei nein spenna í leikjunum í Stykkishólmi og á Sauðárkróki.

Tölfræði úr leikjunum má sjá neðst í fréttinni.

Staðan eftir leiki kvöldsins: Tindastóll 14, Stjarnan 14, KR 12, Grindavík 12, Þór Ak. 10, Njarðvík 8, Skallagrímur 8, Þór Þ. 8, Haukar 8, Keflavík 6, ÍR 6, Snæfell 0.

Njarðvík - Þór Akureyri, 94:105
(26:29 - 52:57 - 76:81 - 94:105)
Tindastóll - Skallagrímur, 97:75
(33:16 - 52:36 - 79:51 - 97:75)
ÍR - Þór Þorlákshöfn, 74:72
(20:16 - 43:33 - 55:54 - 74:72)
Snæfell - Haukar, 78:95
(19:24 - 37:49 - 56:77 - 78:95)

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

21.03 - Svakaleg lokamínúta í Breiðholti en ÍR vann að lokum, 74:72. Þórsarar fengu tækifæri til að jafna metin, eða tryggja sér sigur, í síðustu sókn leiksins en Tobin Carberry missti boltann frá sér.

20.50 - Mikil spenna í eina leiknum sem er ólokið, í Breiðholti. Magic Baginski var að stela boltanum fyrir Þór Þorlákshöfn og minnka muninn í eitt stig, 68:67.

20.48 - Haukar unnu öruggan sigur á Snæfelli, 95:78. Sherrod Wright var stigahæstur með 33 stig og Haukur Óskarsson kom næstur með 15 stig. Sefton Barrett var með 17 fyrir heimamenn.

20.47 - Tindastóll vann 22 stiga sigur á Skallagrími, 97:75. Stólarnir stungu af í 1. leikhluta. Antonio Hester var stigahæstur með 25 stig en Pétur Rúnar skoraði 23. Flenard Whitfield setti niður 32 stig fyrir gestina.

20.35 - Skúli skrifar úr Njarðvík: Leik lokið með 105:94-sigri Þórs frá Akureyri. Þórsarar skoruðu fyrstu 4 stig fjórðungsins og voru allt í einu komnir í 10 stiga forystu, sú stærsta fram að þessu þetta kvöldið. Áfram héldu þeir að hamra járnið og þegar 6 mínútur voru til loka leiks þa var staðan 80:92 gestina í vil og lítið annað leit út fyrir en að Njarðvíkingar sem fyrir leik voru búnir að leggja bæði silfurliðið og gullliðið frá því á síðustu leiktíð væru að lúta í parket. Njarðvíkingar náðu aldrei í raun að ógna þessu forskoti Þórsarar sem gengu á lagið og héldu áfram að skora grimmt á afar slakan varnarleik heimamanna. Mest náðu Njarðvíkingar muninum niður í 9 stig en Þórsarar sigruðu verðskuldað.

20.35 - ÍR-ingar eru aðeins stigi yfir gegn Þór Þorlákshöfn, 55:54, fyrir lokafjórðunginn. Spenna í Breiðholti

20.26 - Haukar og Tindastólsmenn eru að landa sigri. Haukar eru 77:56 yfir gegn Snæfelli fyrir lokafjórðunginn, og Tindastóll 79:51 yfir gegn Skallagrími. Þór er kominn í 94:81 gegn Njarðvík þegar um fjórar mínútur eru eftir, og staðan er jöfn hjá ÍR og Þór Þorlákshöfn þar sem enn er þriðji leikhluti, 51:51.

20.18 - Skúli skrifar úr Njarðvík: Þórsarar eru enn hænufeti á undan Njarðvíkingum og leiða með 5 stigum fyrir síðasta fjórðung leiksins. Nú er lag fyrir annað liðið að hefja varnarleik til að klára með sigri því enn bíða stuðningsmenn beggja liða eftir því. Liðin skoruðu bæði 24 stig í þriðja fjórðung og staðan er 81:76.

19.59 - Hálfleikur í Breiðholti, og þar með í öllum leikjunum. ÍR-ingar eru tíu stigum yfir, 43:33. Matthías Orri Sigurðarson er kominn með 17 stig en hjá Þór er Tobin Carberry stigahæstur með 11 stig.

19.55 - Hálfleikur á Króknum. Heimamenn héldu sínu góða forskoti úr fyrsta leikhluta og eru 52:36 yfir. Antonio Hester er með 15 stig, Pétur Rúnar 13 og Chris Caird 11. Hjá Skallagrími er Flenard Whitfield langstigahæstur með 17 stig.

19.54 - Hálfleikur í Hólminum. Haukar eru yfir, 49:37. Sherrod Wright er stigahæstur með 18 stig og Emil Barja er með 19. Hjá Snæfelli er Sefton Barrett með 17 stig.

19.52 - Skúli skrifar úr Njarðvík: Þessi leikur hér í Njarðvík er að spilast eins og einhver Stjörnuleikur.  Sóknarleikurinn í hávegum hafður og lítið hugsað til varnarleiks.  Eitthvað virðast þó Njarðvíkingar þurfa að hafa aðeins meira fyrir sínum stigum og ef ermarnar verða ekki brettar upp í varnarleik liðsins koma Þórsarar til með að taka þau stig sem í boði eru hér í kvöld norður yfir heiðar. Þröstur Leó Jóhannsson er stigahæstur gestana með 20 stig og það komandi af bekknum. Hjá Njarðvík er Jeremy Atkinson með 16 stig þrátt fyrir að vera að eiga við 216 cm frá Tryggva Hlinasyni.

19.44 - Haukar eru að stinga Snæfell af í Stykkishólmi, komnir í 42:25. Hinn 19 ára Breki Gylfason kom inná og hefur sett niður bæði þriggja stiga skot sín fyrir gestina úr Hafnarfirði.

19.38 - Fyrsta leikhluta lokið í öllum leikjum. Pétur Rúnar Birgisson er þegar kominn með 11 stig fyrir Tindastól sem er að rúlla yfir Skallagrím fyrir norðan, 33:16.

19.33 - Skúli skrifar úr Njarðvík: Leikurinn hér í Njarðvík fer vel af stað og mikið skorað á báða bóga á upphafsmínútum leiksins. Sóknarleikur beggja liða uppá tíu en hinsvegar mættu bæði lið fara í saumana á varnarleik sínum. Af þessum sökum þá skiptust liðin bróðurlega á að skora stigin og jafnt var á flestum tölum og ef ekki hefði verið fyrir þrist hjá Ingva Ingvarssyni á lokasekúndum leiksins væri jafnt. En staðan er 26:29 eftir fyrstu 10 mínútur leiksins.

19.24 - ÍR-ingar byrja vel gegn Þór á heimavelli, þar sem þeir freista þess að binda endi á taphrinu sína. Staðan 14:8 þegar 1. leikhluti er að verða hálfnaður. Snæfell er yfir gegn Haukum, 14:13.

19.15 - Þá er verið að kasta boltanum í loftið í leikjunum fjórum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert