Læri fleiri afbrigði af leiknum en heima á Íslandi

Kári Jónsson í leik með háskólaliði sínu í vetur.
Kári Jónsson í leik með háskólaliði sínu í vetur. Ljósmynd/Drexel

Hafnfirðingurinn efnilegi Kári Jónsson hefur stimplað sig vel inn í bandaríska háskólakörfuboltann, NCAA, á sínum fyrsta vetri vestanhafs. Kári hefur skorað rúm 9 stig að meðaltali í leik fyrir Drexel-skólann í Philadelphiu en liðið hefur unnið sjö leiki og tapað ellefu.

Kári hélt utan á ágætum tímapunkti. Hann var valinn efnilegasti leikmaður Dominos-deildarinnar í fyrra og var í raun einn allra besti Íslendingurinn í deildinni á síðasta tímabili. Um sumarið var hann síðan í liði mótsins þegar Ísland vann sig upp úr B-deild á EM landsliða skipuð leikmönnum 20 ára og yngri.

Meiri íþróttamenn hérna

„Ýmislegt í kringum æfingar og leiki er faglegra heldur en heima. Á móti kemur að þegar maður spilar í úrslitakeppninni heima mætir maður snjallari leikmönnum en hérna eru leikmennirnir meiri íþróttamenn. Hérna úti lærir maður líka fleiri afbrigði af leiknum heldur en heima. Þetta hefur því klárlega verið stökk upp á við fyrir mig. Það er alveg á hreinu,“ sagði Kári þegar Morgunblaðið hafði samband við hann og ræddi við hann um gang mála.

Kári segist finna fyrir framförum á þeim mánuðum sem hann hefur dvalið ytra. „Það er ýmislegt sem maður getur bætt í sínum leik og maður fær að heyra hvað maður getur gert betur. Maður getur til dæmis alltaf bætt sig í vörn og það er eitthvað sem ég þurfti að bæta mig í. Mér finnst ég hafa gert það á þessu hálfa ári eða svo. Það er aðalatriðið en einnig eru minni atriði sem ég hef reynt að fínpússa.“

Ítarlega er rætt við Kára í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert