Þunnskipaðir og þreytulegir

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. mbl.is/Eggert

„Það var helst frábær hittni þeirra fyrir utan þriggja stiga línuna sem skildi á milli liðanna í kvöld,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, eftir tapið gegn Stjörnunni í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld.

„Ég veit alveg að þeir [Stjörnumenn] hafa oft spilað betri körfubolta en það var svolítið sérstakt að staðan væri jöfn í hálfleik, því mér fannst við þunglamalegir og hálfþreytulegir. Við höfum lítið getað æft eftir bikarinn, og þeir Þorsteinn, Baldur og Davíð eru frá vegna meiðsla auk þess sem Grétar er með lungnabólgu. Þannig að við erum bara þunnskipaðir – vorum með sjö menn að spila í kvöld og þrjá stráka sem hafa nú ekki mikla reynslu af Dominos-deildinni. Það hefur sitt að segja en svo fannst mér við heldur mistækir í lok þriðja leikhluta og byrjun fjórða. Við gerðum þá mistök sem komu í veg fyrir að við næðum að byggja upp betra forskot, því það voru tækifæri til þess,“ sagði Einar Árni, en Þórsarar komust sex stigum yfir rétt fyrir lok þriðja leikhluta og voru í fínni stöðu þegar fjórði leikhluti hófst:

„Við köstuðum henni strax frá okkur. Við misstum menn framhjá okkur í auðveld sniðskot, Tómas fékk þrist úr horninu og Eysteinn tvo, og svo fengu þeir sóknarfráköst í gegnum allan leikinn. Það er ekki bara vegna fámennis og þreytu, þeir eru einfaldlega stærri en við, en við þurfum samt að gera betur í frákastabaráttunni og í baráttunni um lausa bolta. Þar fannst mér vanta meiri vilja,“ sagði Einar Árni. Skotnýtingin hafi hins vegar skipt enn meira máli:

„Þeir hittu vel og á sama tíma hittum við mjög illa. Við vorum með 15% þriggja stiga nýtingu á meðan að þeir voru með 38%. Það er helvítis hellingur og rúmlega sá stigafjöldi sem skildi liðin að.“

„Marvin fékk tæknivillu fyrir að garga á dómarann“

Stjörnumenn voru afar óánægðir með dómgæsluna í leiknum en þeir misstu Marvin Valdimarsson af velli með fimm villur í þriðja leikhluta, eftir að hann fékk sína fimmtu villu fyrir mótmæli:

„Mér fannst þetta fín dómgæsla. Ég veit svo sem ekki nákvæmlega með þessar tæknivillur, en Marvin fékk tæknivillu fyrir að garga á dómarann. Ég held að það sé bara eftir leikreglunum. Þeir fengu líka tæknivillu fyrir „flopp“ sem var hárréttur dómur. Dómararnir eiga rétt eins og við misjafna daga, en í þessum leik fannst mér dómgæslan bara góð. Mér fannst vissulega Hlynur stundum fá að „dudda“ aðeins í mönnum í frákastabaráttunni en ég ætla ekkert að skæla. Við þurfum bara að vera harðari af okkur,“ sagði Einar Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert