Grindavík á ótrúlegu flugi í úrslitin

Hlynur Bæringsson og Ólafur Ólafsson eigast við í dag.
Hlynur Bæringsson og Ólafur Ólafsson eigast við í dag. mbl.is/Golli - Kjartan Þorbjörnsson

Grindavík er komin í úrslitaeinvígi Dominos-deildar karla í körfubolta og mætir þar annað hvort KR eða Keflavík. Grindvíkingar niðurlægðu hreinlega Stjörnumenn í þriðja leik liðanna, í Ásgarði í dag, og unnu undanúrslitarimmuna því 3:0.

Það gekk allt upp hjá Grindavík í dag, í vörn og sókn. Leikmenn liðsins voru frá fyrstu mínútu sjóðheitir, sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna en þar skoraði liðið úr 17 af 31 tilraun. Á meðan komst Stjarnan ekkert áleiðis í sóknarleik sínum, gestirnir voru grimmari í allri baráttu um boltann og höfðu 12 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 26:14.

Stjörnumönnum gekk ekkert að svara fyrir sig í öðrum leikhluta og vonleysið skein úr hverju andliti eftir því sem leið á hann. Tala má um algjöra uppgjöf eftir því sem leið að hálfleik og Grindvíkingar nýttu sér það til að gera hreinlega út um leikinn. Staðan í hálfleik var 52:29 og höfðu þeir Lewis Clinc og Dagur Kár Jónsson þá skorað 15 stig hvor, og Þorsteinn Finnbogason 10 en hann átti magnaða innkomu af bekknum og skoraði alls 22 stig í leiknum.

Stjarnan fékk vandræðalega lítið framlag frá sínum lykilmönnum og jafnvel höfðinginn sjálfur, Hlynur Bæringsson, átti skelfilegan leik og hitti úr engu sinna ellefu skota úr opnum leik í dag. Stjarnan hafði svo sannarlega þurft á Hlyni að halda í þessari seríu en þegar hann brást var enginn tilbúinn að taka við keflinu.

Seinni hálfleikur náði aldrei neinu flugi. Grindavík hélt þeirri einbeitingu sem þurfti til að hleypa Stjörnunni aldrei inn í leikinn í þriðja leikhluta, og eftir því sem leið á seinni hálfleik fengu minni spámenn að spreyta sig í báðum liðum. Leikurinn fjaraði smám saman út enda öllum ljóst hver niðurstaðan yrði.

Grindavík lék síðast í úrslitum árið 2014 og varð síðast Íslandsmeistari 2013. Liðinu var spáð 10. sæti í Dominos-deildinni fyrir þetta tímabil en hefur heldur betur gert lítið úr þeim spádómum.

Stjarnan 69:104 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert