Misstum trúna og þá er þetta „game over“

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var skiljanlega niðurlútur eftir 98:65-tap hans manna gegn KR í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik. Vinna þarf þrjá leiki til að hampa titlinum en næsti leikur fer fram í Grindavík á föstudagskvöld.

„Ég get lítið sagt og er mjög fúll,“ sagði Jóhann í samtali við mbl.is í Vesturbænum í kvöld. 

Grindvíkingar voru góðir í fyrsta leikhluta og höfðu þriggja stiga forystu að honum loknum. „Svo bara fjarar þetta út hjá okkur. Við höldum okkur ekki við skipulag og mér fannst við spila þetta upp í hendurnar á þeim. Þetta fjaraði út, við misstum trúna og þá er þetta „game over“,“ bætti Jóhann við.

Eigum ekki heima hér með svona spilamennsku

„Í þriðja leikhluta eru þeir að setja risa skot á meðan við erum að klikka á auðveldum skotum, ekki grípa boltann undir körfunni og eitt og annað sem snýr þessu við. Fyrst og fremst eru mínir menn slakir og þar liggur hundurinn grafinn. Með þessari spilamennsku eigum við ekki heima hér,“ sagði Jóhann.

Hann sagði að Grindvíkingar þyrftu núna að horfa fram á veginn. „Það er 1:0 þó að við höfum tapað með rúmlega 30 stiga mun. Við verðum að vinna á föstudaginn og við þurfum að sýna sjálfum okkur og öðrum að við eigum heima hérna. Þetta var það slakasta sem ég hef séð í langan tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert