Kemur í ljós á næstu tveimur vikum

Sigurður Gunnar Þorsteinsson eftir að liðið tryggði sér sæti í …
Sigurður Gunnar Þorsteinsson eftir að liðið tryggði sér sæti í lokakeppni EM. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það er mikil tilhlökkun og menn eru spenntir fyrir mótinu. Við erum að verða tilbúnir fyrir þetta,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson, landsliðsmaður í körfubolta, í samtali við mbl.is í dag. Íslenska liðið leikur gegn Belgum í tveimur vináttuleikjum hér á landi í vikunni. Leikirnir eru þeir fyrstu í undirbúningi liðsins fyrir Evrópumótið í Finnlandi sem hefst í lok ágúst. Eftir leikina við Belga taka við leikir við Rússa, Þjóðverja, Ungverja og Litháa. 

„Við þekkjum Belga vel, það vantar nokkra leikmenn í liðið, en engu að síður eru þeir með hörkulið og þetta verða skemmtilegir leikir. Við verðum með alla okkar leikmenn og við munum rúlla á mannskapnum á meðan það vantar sex bestu leikmenn þeirra.“

„Það eru hörkuleikir sem koma í framhaldi. Við erum að spila við Rússa og Þjóðverja og Ungverja áður en við mætum Ungverjum aftur og svo Litháen, þetta er alvöruprógramm. Það er mikil spenna að vera komnir inn á EM og við viljum gera betur en seinast. Það er meiri ákefð og harka á æfingum.“

Ísland er með Grikklandi, Póllandi, Frakklandi, Slóveníu og Finnlandi í riðli á EM.

„Þetta er erfiður riðill en það er alltaf hægt að ná í sigra hér og þar. Möguleikarnir okkar eru ágætir þó að þeir líti ekki vel út á blaði.“

Sigurður staðfesti að hann hafi yfirgefið AE Larissa í Grikklandi og muni róa á önnur mið. 

„Ég verð ekki í sama liði og ég er ekki búinn að ákveða hvað ég ætla að gera. Það er ekki margt sem kemur til greina, en ég er að skoða mín mál. Þau koma í ljós á næstu tveimur vikum eða svo,“ sagði Sigurður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert