Tvö bestu lið Íslands

Adomas Drungilas, lengst til hægri, horfir á félaga sína lyfta …
Adomas Drungilas, lengst til hægri, horfir á félaga sína lyfta bikarnum. mbl.is/Óttar Geirsson

Adomas Drungilas varð í gærkvöldi Íslandsmeistari í körfubolta í annað skipti er Tindastóll vann 82:81-útisigur á Val í oddaleik í úrslitaeinvíginu. Drungilas varð meistari með Þór frá Þorlákshöfn árið 2021 og hann sagði erfitt að bera titlana saman.

„Það er erfitt að bera þetta saman, því ekkert tímabil er eins. Andstæðingurinn, þjálfararnir og leikmennirnir eru öðruvísi,“ útskýrði hann.

Tímabil Tindastóls fór ekki á flug fyrr en Pavel Ermolinskij tók við sem þjálfari Tindastóls eftir áramót.

„Við vorum með annan þjálfara í upphafi móts og við komumst ekki í okkar flæði. Við vorum kannski ekki í vandræðum, en við vorum ólíkir okkur.

Þá skiptum við um þjálfara og skiptum einum leikmanni og fengum meira frelsi í okkar spilamennsku með komu Pavels. Það er ekki hægt að segja annað en að sú breyting hafi verið býsna góð fyrir okkur,“ sagði hann.

Úrslitaeinvígið var ótrúleg skemmtun, enda réðst það á síðasta skotinu í oddaleik.

„Þetta var alvöru úrslitaeinvígi. Bæði lið áttu góða leiki og þetta var gott einvígi, sem var hnífjafnt í lokin. Þetta voru tvö bestu lið Íslands,“ sagði Drungilas, sem hljóp að fagna með stuðningsmönnum Tindastóls, áður en blaðamaður náði að byrja á næstu spurningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert