Franska undrabarnið fór á kostum

Victor Wembanyama.
Victor Wembanyama. AFP/Brien Aho

Frakkinn Victor Wembanyama átti magnaðan leik fyrir San Antonio Spurs þegar liðið vann óvæntan sigur á Oklahoma City Thunder, 132:118, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Hinn tvítugi Wembanyama fór mikinn þegar hann skoraði 28 stig, tók 13 fráköst, gaf sjö stoðsendingar og varði fimm skot.

Devin Vassell skoraði sömuleiðis 28 stig fyrir San Antonio og gaf níu stoðsendingar.

Aðeins var um tólfta sigur San Antonio á tímabilinu að ræða á meðan Oklahoma er í öðru sæti Vesturdeildarinnar með 41 sigur í 59 leikjum.

Í liði Oklahoma var Shai Gilgeous-Alexander stigahæstur með 31 stig og sex fráköst. Jalen Williams bætti við 26 stigum og sex fráköstum.

Davis óstöðvandi

Anthony Davis fór á kostum í liði LA Lakers í naumum sigri á Washington Wizards, 134:131, eftir framlengdan spennuleik.

Davis skoraði 40 stig og tók auk þess 15 fráköst. Gamla brýnið LeBron James bætti við 31 stigi og níu stoðsendingum.

Hjá Washington var Jordan Poole stigahæstur með 34 stig og sjö stoðsendingar.

Curry sýndi kunnuglega takta

Steph Curry fór fyrir Golden State Warriors í sterkum útisigri á New York Knicks, 110:99.

Curry skoraði 31 stig og tók 11 fráköst. Jonathan Kuminga bætti við 25 stigum og átta fráköstum.

Í liði New York var Jalen Brunson stigahæstur með 27 stig.

Úrslit næturinnar:

San Antonio – Oklahoma 132:118

LA Lakers – Washington 134:131 (frl.)

New York – Golden State 99:110

Charlotte – Milwaukee 99:111

Orlando – Utah 115:107

Brooklyn – Atlanta 124:97

Phoenix – Houston 110:105

Denver – Miami 103:97

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert