Þá eru þeir hrikalega hættulegir

Keflvíkingar fagna sigrinum í kvöld.
Keflvíkingar fagna sigrinum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, var kátur með að vera kominn í úrslitaleik bikarkeppni karla í körfubolta eftir góðan 113:84-sigur á Stjörnunni í undanúrslitum í kvöld.

„Við spiluðum hörkuvörn á þá og við erum með frábæra leikmenn í það og svo var Remy auðvitað frábær,“ sagði hann við mbl.is eftir leik.

Var eitthvað sem kom þér á óvart í leik Stjörnunnar?

„Þeir skora kannski aðeins meira heldur en við stefndum á en við skoruðum líka meira heldur en við bjuggumst við en ég get ekki sagt að það hafi neitt komið okkur á óvart enda mjög stutt síðan við spiluðum við þá síðast.“

Þið vinnið þennan leik nokkuð þægilega miðað við síðustu tvær viðureignir gegn þeim í deildinni?

„Þeir voru jafnari já. Við vorum með góða forystu í fyrri leiknum gegn þeim en klúðruðum henni þannig að já þetta var þægilegt í því samhengi.“

Úrslitaleikur gegn Tindastóli. Áttir þú von á Skagfirðingum í úrslitum?

„Tindastóll er hugsanlega best mannaða liðið í þessari deild. Þeir hafa ekki náð að mynda kannski almennilegan hljóm hingað til en mér sýndist þeir vera með ansi vel stillta strengi í leiknum áðan þannig að ég á von á hörkuleik gegn sterku liði Tindastóls á laugardaginn. Um leið og þeir ná að spila vel saman þá eru þeir hrikalega hættulegir,“ sagði Pétur að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert