Ætlum að vinna þær í úrslitum

Hulda María Agnarsdóttir úr Njarðvík sækir að Elisu Pinzan hjá …
Hulda María Agnarsdóttir úr Njarðvík sækir að Elisu Pinzan hjá Keflavík í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var svekktur með 86:72-tap gegn Keflavík í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta í dag. Hans fyrstu viðbrögð eftir leik voru þessi:

„Allt of stórt tap að mínu mati en það er frammistaða okkar í fyrri hálfleik sem býr þessi úrslit til fyrir lið Keflavíkur. Við þekkjum Keflavík það vel og vitum nákvæmlega í hverju þær eru góðar og við spilum þetta bara upp í þeirra hendur í fyrri hálfleik.

Anna Ingunn er með boltann í kyrrstöðu og hún fær nægan tíma til að setja niður þriggja stiga körfu og kveikja í þeim,“ sagði Rúnar og hélt áfram:

„Annar styrkleiki sem við leyfum þeim að nota á okkur er að taka erfið skot og hleypa þeim upp í að keyra í bakið á okkur vitandi að það er það sem keflavíkurliðið er best í,“ sagði hann við mbl.is.

Í þriðja leikhluta náið þið að minnka muninn niður í sex stig og svo er eins og Njarðvíkurliðið verði bensínlaust og Keflavík keyrir yfir ykkur.

„Þetta er orðinn leikur aftur á þessum tímapunkti og það er allt með okkur en þá erum við ekki nægilega öguð. Við hleypum þeirra bestu leikmönnum aftur inn í leikinn og náum ekki að stoppa þær og því fór sem fór."

Nú er væntanlega fókusinn settur á undirbúning fyrir úrslitakeppnina?

„Núna þarf ég að stappa stálinu í stelpurnar. Það eru tveir mánuðir þangað til við ætlum að mæta þeim aftur í úrslitum og við ætlum að vinna þær þar," sagði Rúnar að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert