Brjálaður yfir þessari frammistöðu

Eve Braslis sækir að körfu Þórsara í kvöld.
Eve Braslis sækir að körfu Þórsara í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Þorleifur Ólafsson þjálfari Grindavíkur var virkilega ósáttur við frammistöðu Grindavíkur sem tapaði gegn Þór frá Akureyri í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta í Laugardalshöllinni í kvöld. Urðu lokatölur 79:75.  

„Við skitum á okkur í öðrum leikhluta og bara í öllum leiknum. Vörnin var ofboðslega léleg og ég er brjálaður yfir þessari frammistöðu,“ sagði hann svekktur við mbl.is eftir leik.

Þið eruð yfir framan af og þetta virðist ætla að verða þægilegt fyrir Grindavík í kvöld. Síðan kemur annar leikhluti og þá á sér stað algjör viðsnúningur þar sem Þór nær góðu forskoti. Hvað gerðist?

„Við vorum ömurleg í vörn. Við færum ekki, tölum ekki og það fór allt úrskeiðis í vörninni. Þá fengum við ekki hraðaupphlaup og ekki auðveldar körfur. Við töpum þessum leik á vanmati og einbeitingarleysi.  

Ég talaði um það fyrir leik að við ætluðum að rúlla yfir þær þar sem ég tel okkur miklu betra lið. Þær hinsvegar sýndu alþjóð að þær eru frábærar og virkilega flott hjá þeim."

Það komu nokkrir tímapunktar þar sem það vantaði herslumuninn að þið kæmust inn í leikinn en það bara gekk ekki?

„Yfir höfuð var þetta bara alls ekki nógu gott og mjög slæm frammistaða hjá nánast öllum og mér meðtöldum. Ég ber ábyrgð á þessu liði og ég þarf bara að taka þetta á mig."

Nú er það bara deildin sem tekur við. Hvaða markmið liggja fyrir þar?

„Við ætlum bara að fara alla leið þar og við þurfum heldur betur að spýta í lófana ef við ætlum okkur að ná því. En þetta var heldur betur skita í kvöld hjá okkur í Grindavík," sagði Þorleifur að lokum í samtali við mbl.is  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert