Gamla ljósmyndin: Stúdínur

mbl.is/Sigurjón Guðjónsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Í dag verður leikið til úrslita í bikarkeppni Körfuknattleikssambandsins, Vís bikarnum í Laugardalshöllinni. Þá mætast Keflavík og Tindastóll í úrslitum í karlaflokki og Keflavík og Þór Akureyri í kvennaflokki. 

Á meðfylgjandi mynd fagna Stúdínur sigri í bikarkeppninni árið 2006 eftir 88:73 sigur liðsins gegn Grindavík. Stella Rún Kristjánsdóttir og Signý Hermannsdóttir hlaupa sigurhringinn með bikarinn á milli sín í Laugardalshöllinni. Myndina tók kunnur ljósmyndari Sigurjón Guðjónsson sem þá myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

ÍS, eða Íþróttafélag Stúdenta, teflir ekki fram liðum í dag en liðið varð sjö sinnum bikarmeistari kvenna í körfunni: 1978, 1980, 1981, 1985, 1991, 2003 og 2006. 

Signý Hermannsdóttir er í hópi allra bestu miðherja frá upphafi í kvennaflokki hérlendis. Þegar hún hætti keppni árið 2013 hafði engin tekið fleiri fráköst eða varið fleiri skot en hún í efstu deild kvenna. Signý varð bikarmeistari með ÍS eins og áður segir en varð Íslandsmeistari með KR árið 2010 en þá skoraði hún 13 að meðaltali, tók 11 fráköst og varði meira en 5 skot í leik sem er með ólíkindum. Signý var valin leikmaður ársins árið 2003. 

Signý er uppalin í Val en lék einnig með ÍS og KR hér heima en erlendis með Tenerife á Spáni og Cameron í Oklahoma í bandaríska háskólaboltanum. 

Signý lék 61. A-landsleik fyrir Íslands hönd og þar af 56 í byrjunarliði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert