Gamla ljósmyndin: Stigahæstur frá upphafi

mbl.is/Einar Falur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Njarðvíkingurinn Valur Ingimundarson er einn atkvæðamesti körfuknattleiksmaður sem fram hefur komið hérlendis. Hann var spilandi þjálfari Njarðvíkur þegar liðið varð bikarmeistari í fyrsta skipti í sögu félagsins árið 1987. Sjálfur skoraði Valur þá 17 stig í úrslitaleiknum gegn Val sem Njarðvík vann 91:69.

Njarðvík varð einnig Íslandsmeistari sama ár og við það tilefni er meðfylgjandi mynd tekin. Myndina tók Einar Falur Ingólfsson sem myndað hefur og skrifað fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. 

Njarðvík varð einnig bikarmeistari árið eftir með Val Ingimundarson í fararbroddi en hann varð tvívegis bikarmeistari á ferlinum en átta sinnum Íslandsmeistari með Njarðvík frá 1981 - 1995. Lék hann einnig með Tindastóli og Skallagrími hérlendis en erlendis með Odense í Danmörku.

Valur lék 400 leiki slétta í efstu deild Íslandsmótsins á ferlinum. Skoraði hann 7.355 stig og  er stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi. 

Stundum virtist Valur geta skorað nánast að vild. Mest skoraði hann 54 stig í einum leik í deildinni. Var það fyrir Tindastól gegn Haukum í október 1988. Sá leikur var þríframlengdur og Valur var inn á allar 55 mínúturnar. Í leiknum skilaði hann tuttugu vítaskotum af tuttugu og tveimur rétta leið sem er yfir 90% hittni. 

Valur Ingimundarson lék 164 A-landsleiki á fimmtán ára tímabili og er sá næstleikjahæsti frá upphafi. 

Valur var á meðal tíu efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins árið 1984. 

Bíkarúrslitaleikir í bikarkeppnum KKÍ, VÍS-bikarnum, fara fram í dag og í kvöld í Smáranum. Njarðvík er í úrslitum í karlaflokki og mætir þar Stjörnunni. Í kvennaflokki eigast við Haukar og Fjölnir. 

mbl.is