Keflavík bikarmeistari í fyrsta sinn í 12 ár

Keflvíkingar fagna með bikarinn.
Keflvíkingar fagna með bikarinn. mbl.is/Óttar Geirsson

Keflavík er bikarmeistari karla í körfubolta árið 2024 eftir sigur á Tindastóli 92:79 í Laugardalshöll í dag.

Um er að ræða fyrsta bikarmeistaratitil Keflavíkur í 12 ár. 

Liðin tryggðu sér sæti í úrslitaleikinn með sitthvorum sigrinum í undanúrslitum á þriðjudaginn var. Keflavík vann Stjörnuna og Tindastóll Álftanes. 

Allt í járnum í fyrsta leikhluta.

Callum Lawson setti niður fyrstu körfu leiksins og var hún þriggja stiga. Keflavík svaraði fyrir sig með tveimur þriggja stiga körfum frá Jaka Brodnik. Þannig var allur fyrsti leikhlutinn, liðin skiptust á að komast yfir og Keflavík jafnaði leikinn í stöðunni 7:7 og Tindastóll í stöðunni 13:13. Remy Martin jafnaði síðan fyrir Keflavík í stöðunni 15:15. Staðan eftir fyrsta leikhluta 22:21 fyrir Tindastól og allt í járnum.

Callum Lawson úr Tindastóli sækir að körfu Keflavíkur í dag.
Callum Lawson úr Tindastóli sækir að körfu Keflavíkur í dag. mbl.is/Óttar

Annar leikhluti spennandi.

Mikil spenna og hiti var í öðrum leikhluta og var hann í raun alveg eins og sá fyrsti. Liðin skiptust á að komast yfir. Keflavík jafnaði í stöðunni 25:25 og komust yfir 30:27. Þá jafnaði Tindastóll með þriggja stiga körfu en Keflavík komst aftur yfir. Mestur var munurinn í örfáar sekúndur í stöðunni 40:36 fyrir Tindastól en Sigurður Pétursson minnkaði strax muninn í tvö stig. Staðan í hálfleik 44:42 fyrir Tindastól og allt í járnum.

Stigahæstir í liði Keflavíkur í fyrri hálfleik var Jaka Brodnik með 16 stig og Remy Martin með 11 stig. Í liði Tindastóls voru það Callum Lawson og Keyshawn Antonio Woods báðir með 11 stig.

Remy Martin fór á kostum í seinni hálfleik.
Remy Martin fór á kostum í seinni hálfleik. mbl.is/Óttar Geirsson

Kaflaskiptur þriðji leikhluti.

Þriðji leikhlutinn var vægast sagt kaflaskiptur. Það var eins og leikmenn Keflavíkur væru ekki mættir í síðari hálfleikinn því leikmenn Tindastóls skoruðu fyrstu 10 stig leiksins og náðu 14 stiga forskoti á Keflavík. Það breytti engu því allt í einu settu Keflvíkingar allt í gang, minnkuðu muninn og komust að lokum yfir fyrir lok þriðja leikhluta. Keflavík leiddi því fyrir loka leikhlutann með 6 stigum, 73:67.

Fjórði leikhluti.

Leikmenn keflavíkur héldu fengnum hlut í fjórða leikhluta og átti Tindastóll aldrei möguleika á að komast aftur inn í leikinn. Mátti sjá svip á þessum leik og þegar liðin áttust við í Keflavík þar sem Tindastóll leiddi framan af en virtust síðan springa í 3 og 4 leikhluta. Það má því segja að formið hafi unnið í dag.

Stiahæstur í liði Keflavíkur var Remy Martin með 23 stig. Hjá Tindastóli var það Keyshawn Antonio Woods með 18 stig.

Til hamingju Keflavík.

Sigurður Pétursson.
Sigurður Pétursson. mbl.is/Óttar Geirsson
Keflavík 92:79 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert