Grindavík sópaði Þórsurum í sumarfrí

Sarah Sofie Mortensen skoraði 19 stig fyrir Grindavík í kvöld.
Sarah Sofie Mortensen skoraði 19 stig fyrir Grindavík í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grindavík tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik kvenna með því að leggja Þór frá Akureyri örugglega að velli, 93:75, í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum í Smáranum í Kópavogi.

Grindavík vann einvígið 3:0 og þar með er þátttöku Þórsara á Íslandsmótinu lokið í ár.

Grindvíkingar hófu leikinn af miklum krafti og náðu til að mynda 11 stiga forystu, 18:7, þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður.

Þór tók þá við sér og lagaði stöðuna, sem var 25:20 að loknum fyrsta leikhluta.

Mikið jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en staðan í hálfleik var 47:40, Grindavík í vil.

Í síðari hálfleik óx Grindvíkingum ásmegin og voru þeir 15 stigum yfir, 73:58, að loknum þriðja leikhluta.

Fjórði leikhluti reyndist nokkurs konar formsatriði fyrir Grindavík og niðurstaðan að lokum öruggur 18 stiga sigur.

Eve Braslis fór á kostum í liði Grindavíkur er hún skoraði 26 stig og tók tíu fráköst. Sarah Sofie Mortensen bætti við 19 stigum.

Lore Devos var stigahæst hjá Þór með 24 stig og átta fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert