Gríska undrið ekki með í fyrstu leikjunum

Giannis Antetokounmpo meiddist á dögunum.
Giannis Antetokounmpo meiddist á dögunum. AFP/Stacy Revere

Grikkinn Giannis Antetokounmpo verður ekki með liði sínu Milwaukee Bucks í fyrstu leikjum liðsins gegn Indiana Pacers í úrslitakeppni Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik vegna meiðsla.

Antetokounmpo hefur verið að glíma við meiðsli á vinstri kálfa að undanförnu og samkvæmt ESPN verður gríska undrið ekki búið að jafna sig í tæka tíð fyrir fyrstu leikina.

Vonir standi þó til hjá félaginu að hann verði klár í slaginn þegar líða tekur á einvígið í átta liða úrslitum Austurdeildarinnar, þar sem vinna þarf fjóra leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Einvígið hefst á sunnudaginn.

Antetokounmpo er einn besti leikmaður NBA-deildarinnar og hefur einmitt verið kjörinn mikilvægasti leikmaður hennar í tvígang; árin 2019 og 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert