Sjötta gullið hjá Phelps

Michael Phelps fagnar eftir að sjötta gullið var í höfn …
Michael Phelps fagnar eftir að sjötta gullið var í höfn í nótt. Reuters

Bandaríski sundmaðurinn Michael Phelps vann sín sjöttu gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking í nótt þegar hann sigraði í 200 metra fjórsundi og setti um leið sitt sjötta heimsmet á leikunum. Vantar hann nú aðeins eitt gull til að jafna met Mark Spitz, sem vann sjö gull á einum Ólympíuleikum.

Phelps synti vegalengdina á 1 mínútu, 54,23 sekúndum og bætti fyrra met sitt um 0,57 sekúndur en það setti hann á úrtökumóti Bandaríkjanna í júlí.

Hinn efnilegi Lazslo Cseh frá Ungverjalandi varð annar á nýju Evrópumeti, 1:56,52 mínútu, og þriðji varð Ryan Lochte frá Bandaríkjunum á 1:56,53, en Lochte fékk aðeins 10 mínútur til að jafna sig eftir að hafa krækt í gullverðlaunin í 200 metra baksundinu.

Phelps keppir í 100 m flugsundi í fyrramálið, og getur þá jafnað met Spitz, og á sunnudaginn keppir hann með bandarísku boðsveitinni og þá gæti hann unnið áttunda gullið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert