Björgvin: „Stærsti handboltaleikur sem ég hef tekið þátt í“

Björgvin Gústavsson.
Björgvin Gústavsson. mbl.is/Brynjar Gauti

„Ég borðaði allt sem hægt var í morgunmat og þetta var stærsti handboltaleikur sem ég hef tekið þátt í. Hver einasta skot sem ég varði var bara eitt skref í átt að markmiðinu og öll skotin skiptu máli, hvort sem þau voru í upphafi leiks eða undir lokin,“  sagði Björgvin Gústavsson markvörður íslenska landsliðsins í handknattleik en hann varði 22 skot í 32:30-sigri liðsins gegn Pólverjum í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna í Peking. Björgvin sagði að honum hafi liðið mjög vel fyrir leikinn þar sem að undirbúningurinn hafi verið góður.

„Ég og Hreiðar (Guðmundsson) unnum vel saman að því að pæla í skotunum frá pólsku leikmönnunum. Við vinnum þetta saman og ég hafði ekki hugmynd um hvor okkar myndi byrja fyrr en við komum í leikinn. Samvinnan í hópnum er frábær og þegar varnarleikurinn er svona öflugur þá verður allt auðveldara fyrir okkur markverðina. Ingimundur Ingimundarson og Sverre Jakobsson voru frábærir í „hjarta“ varnarinnar fyrir framan mig og sú barátta smitaði út frá sér til okkar allra,“  sagði Björgvin en hann er með mikið sjálfstraust í markinu þessa dagana. „Við höfum varið svona „þokkalega“‘ í þessari keppni en mér hefur liðið vel að undanförnu og sjálfstraustið er alltaf að aukast,“  sagði Björgvin Gústavsson markvörður.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert