Króatar unnu - Danir leika ekki til úrslita

Lasse Boesen stórskytta Dana í kröppum dansi.
Lasse Boesen stórskytta Dana í kröppum dansi. Reuters

Evrópumeistara Dana í handknattleik karla leika ekki um verðlaun í handknattleikskeppni karla á  Ólympíuleikunum í Peking. Þeir voru rétt í þessu að tapa fyrir ólympíumeisturum Króata, 26:24. Króatar mæta þar með Frökkum í undanúrslitum á föstudag, en Danir leika við Rússa um sæti fimm til átta. Íslendingar verða því fulltrúar Norðurlandanna í undanúrslitum handknattleikskeppninnar. 

Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, var mjög brattur áður en haldið var til Peking og sagði það fullum getum að markmið Dana væri að vinna gullverðlaunin. Sú verður ekki raunin að þessu sinni eftir að Evrópumeistararnir hittu fyrir ofjarla sína í landsliði Króata. Danir unnu Króata í tvígang á Evrópumeistaramótinu í Noregi í janúar, m.a. í úrslitaleiknum. 

Þegar 20 mínútur eru liðnar af síðari hálfleik í viðureign Króata og Dana hafa þeir fyrrnefndu náð eins marks forskoti á nýjan leik, 21:20. Auk þess voru Danir að missa  varnarmanninn sterka, Kasper Nielsen, af leikvelli í tvær mínútur. 

Nú eru tíu mínútur liðnar af síðari hálfleik í viðureign Dana og Króata. Danir hafa jafnað metin, 17:17, eftir að hafa átt undir högg að sækja lengst af leiksins.

Þegar skammt er liðið á síðari hálfleik í viðureign Dana og Króata er forskot Króata komið niður í eitt marka, 16:15. 

Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks í viðureign Dana og Króata í 8-liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. Króatar hafa tveggja marka forskot, 14:12. Þeir byrjuðu afar vel og náðu um tíma fimm marka forskot, 7:2, 9:4. Danir gáfust ekki upp og hafa unnið sig smátt og smátt inn í leikinn. Sigurlið þessa leiks mætir Frökkum í undanúrslitum.

Danir hafa nú náð að jafna metin, 11:11, gegn Króötum í 8-liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. Um það bil fimm mínútur eru til loka fyrri hálfleiks.

Þegar átta mínútur eru til loka fyrri hálfleiks í viðureign Dana og Króata í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna hafa Króatar tveggja marka forskot, 10:8. Danir hafa sótt í sig veðrið síðustu mínútur eftir að hafa lent mest fimm mörkum undir snemma leiks. 

Fyrri hálfleikur Dana og Króata í 8-liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna er nú hálfnaður. Staðan er 7:4, fyrir Króata. Lars Christiansen var að minnka muninn úr vítakasti. 

Nú eru liðnar tíu mínútur af leik Dana og Króata í 8-liða úrslitum handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum. Króatar hafa farið á kostum á upphafsmínútunum og eru komnir með fjögurra marka forskot, 5:1.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert