„Ég gat ekki neitt og er brjáluð yfir þessu“

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir hvetur sínar stelpur áfram.
Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir hvetur sínar stelpur áfram.

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins í blaki, fór ekki leynt með vonbrigði sín eftir 3:1-tap fyrir Lúxemborg í lokaleik liðsins á Smáþjóðaleikunum í kvöld. Sigur í leiknum hefði getað tryggt liðinu silfurverðlaun og því var tapið meira svekkjandi en ella.

„Það er vægt til orða tekið, þetta er bara hræðilegt,“ sagði Jóna Guðlaug við mbl.is eftir leikinn, en hún skildi hvorki upp né niður í leik liðsins í kvöld.

„Ég veit ekki hvað gerðist, botninn datt úr öllum og það kom eitthvað óöryggi upp, en ég veit ekki hvað í fjáranum þetta var. Ég gat ekki neitt og er bara brjáluð yfir þessu, þetta var fáránlegt hjá okkur,“ sagði Jóna Guðlaug.

Ísland vann Liechtenstein og San Marino í fyrstu tveimur leikjunum en töpuðu svo fyrir Svartfjallalandi í gær.

„Fyrstu tveir leikirnir  voru mjög góðir og þriðji líka, Svartfjallaland var bara með of sterkt lið með leikmenn að spila í Meistaradeild og slíkt. Leikirnir tveir á undan voru mjög góðir og þar sýndum við takta sem hefðu rústað leiknum í dag, en þeir komu ekki fram og við náðum ekki að klára þetta,“ sagði Jóna, sem segir umgjörðin í kringum blakið hafa þó verið góða á leikunum.

„Þetta var mjög skemmtilegt, þó ég hefði viljað heyra aðeins meira í Íslendingum í dag. Ég heyrði bara í Lúxemborgurum þó þeir hafi verið mikið færri. En ég er mjög ánægð með að fólk hafi mætt, það var mjög skemmtilegt.

En það er bara alveg ömurlegt að enda þetta svona,“ sagði Jóna Guðlaug við mbl.is í kvöld.

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir á leið upp í smass.
Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir á leið upp í smass.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert