Stefnt að fríverslun milli Íslands og Kína árið 2007

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að stefnt sé að fríverslun milli Íslands og Kína fyrir árið 2007 og unnið að viljayfirlýsingu um samningaviðræður þar að lútandi. Nú þegar sé fjárfestingasamningur í gildi milli ríkjanna, ferðamálasamningur hafi verið gerður í fyrra og nýlega var undirritaður einn umfangsmesti loftferðasamningur sem gerður hefur verið af Íslands hálfu.

Þá sagði Davíð að það væri gleðiefni að innan tíðar verði undirritaður fríverslunarsamningur á milli Íslands og Færeyja sem sé umfangsmesti samningur af því tagi sem Ísland hafi gert. Hann nái til búvara og samkvæmt honum verði Íslendingar og Færeyingar jafnt settir í viðskiptalegu tilliti í löndum hvorra annarra. Markmiðið sé að Grænland geti einnig gerst aðili að þessum samningi í náinni framtíð.

Davíð sagði í skýrslu, sem hann flutti á Alþingi um utanríkismál, að lykilatriði væri efla alþjóðlegt viðskiptasamstarf og fríverslun væri leiðin til betri lífskjara fyrir alla. Niðurstaða svonefndrar Doha-samningalotu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar muni hafa áhrif víða um heim. Viðskiptahindrunum verði rutt úr vegi, tollar á iðnvarning munu lækka, og skýrari leikreglur verði settar um alþjóðaviðskipti, sem gagnist einkum smærri ríkjum. Íslensk stjórnvöld hafi lagt ríka áherslu á að viðskiptahamlandi ríkisstyrkir í sjávarútvegi verði afnumdir og hafi dregið úr andstöðu ýmissa ríkja í þessu efni.

Þá sagði Davíð, að þjónustuviðskipti væru sá þáttur alþjóðaviðskipta sem sé í örustum vexti og mikilvægt að að árangur náist varðandi þennan viðskiptageira. Þá sé ljóst að niðurstaða yfirstandandi samningalotu muni stórauka viðskipti milli ríkja með landbúnaðarafurðir. Gera megi ráð fyrir að útflutningsbætur verði afnumdar, dregið verði úr markaðshvetjandi ríkisstuðningi og tollar verði lækkaðir og markaðsaðgengi muni aukast. Mikilvægt sé hins vegar að Doha-lotan taki tillit til sérstöðu og viðkvæmni landbúnaðar á jaðarsvæðum. Þar hafi Ísland sömu sjónarmið og mörg önnur ríki. Fyrirsjáanlegt sé, að ef Doha-lotunni ljúki eins og til standi í lok næsta árs, þá hafi það áhrif á opinberan stuðning við íslenskan landbúnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK