Geysir Green kaupir Jarðboranir á 14,3 milljarða króna

Bor Jarðborana að störfum
Bor Jarðborana að störfum

Geysir Green Energy hefur gengið frá samningum við dótturfélag Atorku Group um kaup á öllu hlutafé í Jarðborunum hf.

Kaupverð hlutafjár í félaginu nemur alls 14,3 milljörðum króna. Samkvæmt tilkynningu frá Atorku innleysir félagið söluhagnað upp á 11 milljarða við viðskiptin.

Í tilkynningu kemur fram að Jarðboranir hafi vaxið gríðarlega á undanförnum árum og er nú orðið stærsta borfyrirtæki heims sem sérhæfir sig í jarðhita. Á síðustu árum hefur verið lagt í miklar fjárfestingar hvað varðar tækjakost og með því hefur verið lagður grundvöllur að auknum umsvifum félagsins á alþjóðavettvangi.

Geysir Green hefur undanfarið byggt upp eignasafn í félögum í jarðvarmaorkuiðnaðinum. Þar á meðal 32% hlut í Hitaveitu Suðurnesja, 20% hlut í Western Geopower og 43% hlut í Enex.

FL Group með 43,1% í Geysir Green Energy

„Í tengslum við framangreindar fjárfestingar Geysis hefur hlutafé félagsins verið aukið og nemur eignarhlutur FL Group í Geysi nú 43,1%. Heildareignir Geysis nema um 40 milljörðum króna og er eigið fé tæpir 20 milljarðar króna," samkvæmt tilkynningu frá FL Group.

FL Group með 7,6% hlut í Atorku Group

„Sem hluti af viðskiptum með Jarðboranir verður Renewable Energy Resources, dótturfélag Atorku Group, annar stærsti hluthafi Geysis með 32% hlut og styður vel við þá kjölfestu sem þegar er til staðar í félaginu. Í tengslum við framangreind kaup Geysis á Jarðborunum hefur FL Group keypt tæplega 3% hlut í Atorku Group og á nú 7,6% hlut í félaginu," samkvæmt tilkynningu.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group og stjórnarformaður Geysis, segir í tilkynningu:
„Á undanförnum mánuðum hefur Geysir Green Energy vaxið mjög hratt og er það ánægjulegt fyrir FL Group að fylgjast með því verki sem unnið er innan félagsins.

Geysir er ein af kjarnafjárfestingum okkar og hlökkum við til að starfa áfram með öðrum hluthöfum félagsins að frekari uppbyggingu þess og fjárfestingum. Við erum ánægðir með þann mikla áhuga sem aðrir fjárfestar sýna Geysi og fögnum aðkomu Atorku Group að félaginu.

Íslendingar standa framarlega í heiminum hvað varðar nýtingu og vinnslu á jarðvarma og er það því mikilvægt að nýta þá þekkingu sem er til staðar og hjálpa til við uppbyggingu á framleiðslu endurnýjanlegrar orku víðsvegar um heiminn, bæði með þekkingu og fjármagni.“

Heildarvirði viðskiptanna 17,7 milljarðar króna

Atorka hefur gengið frá sölu á öllum eignarhlut sínum í Jarðborunum, ásamt 16% hlut í Enex til Geysir Green Energy í gegnum félag sitt Renewable Energy Resources. Samhliða sölunni kaupir Atorka 32% hlut í Geysi og verður með því kjölfestufjárfestir í félaginu. Heildarvirði (Enterprice Value) sölunnar eru 17,7 milljarðar króna og innleystur hagnaður Atorku frá upphafi fjárfestingarinnar er yfir 11 milljarðar króna fyrir reiknaða skatta, að því er segir í tilkynningu frá Atorku.

Áhrif á móðurfélagsreikning á öðrum ársfjórðungi er á fjórða milljarð króna. Áhrif á samstæðureikninga á þriðja ársfjórðungi er um 5 milljarðar króna. Kaupverð Atorku í Geysi Green Energy eru rúmir 7 milljarðar króna.

„Verkefnastaða Jarðborana hefur aldrei verið betri, áætluð velta Jarðborana á árinu 2007 er um 6,5 milljarðar króna og 8 milljarðar króna á árinu 2008.

Heildarvirði (e. Enterprice Value) er um ellefu sinnum af áætlaðri EBITDU ársins 2007 og rúmlega 9 sinnum af áætlaðri EBITDU 2008. Atorka mun áfram fjárfesta í verkefnum í nýtingu jarðvarma með þátttöku sinni sem kjölfestufjárfestir í Geysi.

Jarðboranir hafa verið að hasla sér völl erlendis og hafa nýlega keypt og tryggt sér kauprétt að þremur öflugum hátækniborum sem ætlað er að nýta í útrás félagsins. Nýju borarnir eru sérstaklega hannaðir til að afla jarðhita á miklu dýpi og styrkja enn frekar samkeppnisstöðu félagsins.

Thor Novig, fyrrverandi framkvæmdastjóri þýska borfyrirtækisins Itag Tiefbohr GmbH, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá nýju dótturfélagi Jarðborana í Þýskalandi, Hekla Energy GmbH. Fyrirhugað er að fyrstu borframkvæmdir á vegum Hekla Energy hefjist í Suður-Þýskalandi síðar á þessu ári," að því er segir í tilkynningu.

Magnús Jónsson forstjóri Atorku, segir í tilkynningu: „Með þessari sölu er Atorka að innleysa verulegan hagnað og skapa svigrúm til nýrra fjárfestinga. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og aukum við fjárfestingargetu okkar með þessari sölu. Ljóst er að uppbygging Jarðboranna undir forystu Atorku hefur gengið afar vel og munum við áfram verða kjölfestuhluthafar í félaginu í gegnum Geysi. Við teljum Geysi vera spennandi fjárfestingarkost og mikil tækifæri í að skapa veruleg verðmæti með þátttöku í uppbyggingu á því félagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK