Höfðu einkum augastað á Hotel D’Angleterre

Hotel D’Angleterre við Kóngsins Nýjatorg.
Hotel D’Angleterre við Kóngsins Nýjatorg.

Forsvarsmenn Nordic Partners, íslenska fjárfestingarfélagsins sem í gær keypti nokkur hótel og veitingastaði í Kaupmannahöfn, segjast einkum hafa haft augastað á Hotel D’Angleterre við Kóngsins Nýjatorg en það hótel er eitt það virðulegasta í borginni. Hafa þeir hug á að reka fleiri hótel í Danmörku og jafnvel í öðrum löndum undir því nafni.

Nordic Partners keypti í gær Remmen Hotels, sem á og rekur þrjú hótel og nokkra veitingastaði í Kaupmannahöfn. Kaupverð var ekki gefið upp en blaðið Berlingske Tidende hefur eftir sérfræðingum að það hafi verið um 660-700 milljónir danskra króna, jafnvirði 8,4 milljarða íslenskra króna. Hins vegar er haft eftir lögmanni seljendanna, Henning og Else Marie Remmen, að þau hefðu aldrei selt fyrir það verð.

„Við sóttumst eftir D’Angleterre en vissum vel að fleiri hótel voru í eigu félagsins. Það er hægt að nota nafnið D’Angleterre á fleiri hótel," hefur blaðið eftir Jóni Þór Hjaltasyni, einum af eigendum Nordic Partners. Félagið keypti einnig Hotel Kong Frederik og Hotel Front og rekstur veitingahússins Copenhagen Corner.

„D’Angleterre er merkasta hótelið í Kaupmannahöfn og við gerum okkur góða grein fyrir sögu þess," segir Bjarni Gunnarsson, annar eiganda Nordic Partners. Þeir Jón Þór komu til Kaupmannahafnar í einkaflugvél frá Malaga á Spáni í gær að sögn blaðsins. Þeir eiga fjórar litlar þotur að auki ásamt þeim Gísla Reynissyni og Lettanum Daumas Vitols. Enginn þeirra hefur að sögn Berlingske reynslu af hótelrekstri.

Samkvæmt síðustu áresreikningum var ársvelta Remmen Hotels 163 milljónir danskra króna og hagnaður eftir skatta var 2,9 milljónir. Blaðið hefur eftir sérfræðingi í þessum málum, að þetta sé ágæt velta eða sem svarar til 400 þúsund danskra króna á herbergi.

Remmen Hotels var áður í eigu Henning Remmen og Else Marie Remmen, Þau eru orðin nokkuð við aldur og Henning Remming á að auki við veikindi að stríða.

Heildareignir Nordic Partners 65 milljarðar króna
Gísli Reynisson, forstjóri Nordic Partners, segir við Morgunblaðið í dag, að kaupin á eignum Henning og Else Marie Remmen hafa verið í undirbúningi síðan í febrúar á þessu ári. Félagið geri sér vel grein fyrir því að það sé að kaupa eignir sem skipi stóran sess í huga og hjarta Dana og tillit verði tekið til þess.

„Við verðum virkir eigendur og munum ráðast í frekari fjárfestingar kringum þessar eignir," segir Gísli. Hann upplýsir ekki kaupverðið en segir tölurnar vissulega háar. Kaupin hafi farið fram í góðu samstarfi við Landsbankann og Fyrirtækjaráðgjöf hans.

Gísli segir að með þessum kaupum sé heildarvirði eigna á vegum Nordic Partners um 65 milljarðar króna.

Nordic Partners er fjárfestingarfélag í eigu fjögurra fjárfesta. Saga þess nær aftur til 1997 þegar það tók þátt í einni fyrstu einkavæðingu Lettlands. Félagið á ýmsar eignir á Íslandi, í Litháen, Eistlandi, Lettlandi, Póllandi, Danmörku og víðar. Félagið hefur einnig fjárfest í matar- og drykkjarvöruframleiðslu í Austur-Evrópu. Þá kemur félagið að fisk- og kjötvinnslu á Íslandi en það rekur sælkeraverslanir undir nöfnunum Gallerí Kjöt, Fiskisaga og Ostabúðin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK