Verðbólga yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í rúm 3 ár

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Kristinn

Verðbólga hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands (sem er 2,5%) samfellt frá maímánuði árið 2004 og meira en 1½ prósentu yfir því samfleytt frá septembermánuði árið 2005 þar til í júlí í ár. Hún fór yfir 4% á ný í september, þ.e. 1½ prósentu yfir verðbólgumarkmiðið, og í byrjun októbermánaðar mældist hún 4,5%. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í dag.

„Eitt af helstu álitaefnum peningastefnunnar um þessar mundir er hvort aukinn vöxtur eftirspurnar og aukinn verðbólguþrýstingur að undanförnu sé aðeins tímabundið frávik á ferli verðbólguhjöðnunar eða upphaf þrálátrar verðbólgubylgju.

Hugsanleg rök fyrir hinu fyrrnefnda eru að húsnæðisverð sé þegar orðið mjög hátt og framboð ört vaxandi. Því sé þess skammt að bíða að betra jafnvægi myndist á íbúðamarkaðinum. Í ljósi þess að hækkun íbúðaverðs hefur verið meginuppspretta verð- bólgunnar mætti því ætla að verðbólgan muni hjaðna þegar húsnæðisverð hættir að hækka hlutfallslega miðað við annað verðlag.

Reyndar er það algengt viðkvæði þeirra sem gagnrýna Seðlabankann fyrir of háa stýrivexti, að vegna þess að um sé að ræða kerfislæga breytingu sem leiðir til einnar hliðrunar hlutfallslegs verðlags sé engin ástæða til viðbragða af hálfu bankans.

Þessi afstaða felur í sér mikið vanmat á tregðu verðbólgunnar. Horft er fram hjá annarrar umferðar áhrifum langvarandi vaxtar eftirspurnar umfram framleiðslugetu á vinnumarkað, gengi krónunnar og verðbólguvæntingar sem full ástæða er til að bregðast við. Þau eru sérstakt áhyggjuefni um þessar mundir í ljósi þess að kjarasamningar standa fyrir dyrum á sama tíma og spenna á vinnumarkaði er í algleymingi og ekki horfur á að ytri jöfnuður þjóðar búsins verði sjálfbær á næstu árum nema innlend eftirspurn dragist meira saman en spáð hefur verið til þessa.

Þessar aðstæður gera kröfu um strangt peningalegt aðhald þar til að viðunandi jafnvægi hefur skapast á vinnu-, vöru- og gjaldeyrismarkaði.

Aðhald stýrivaxta Seðlabankans ætti reyndar að vera töluvert nú þegar, ef marka má flesta mælikvarða á raunstýrivexti. Eins og annars staðar í heiminum ræðst áhrifamáttur peningastefnunnar ekki eingöngu af því hve háir stýrivextirnir eru hverju sinni og væntingum um hvernig þeir muni þróast á næstu misserum. Áhættuálag á vexti hefur farið hækkandi víða um heim að undanförnu og er Ísland ekki undanskilið. Það kann að veita peningastefnunni aukinn slagkraft á næstunni. Á hinn bóginn gæti lækkun gengis eða meiri launahækkun í komandi kjarasamningum en samrýmist verðbólgumarkmiðinu eða önnur áföll af því tagi kynt undir verðbólguvæntingar og þannig dregið úr mætti stýrivaxtanna. Því er nauðsynlegt að íhuga gaumgæfilega hvort núverandi stýrivextir séu nógu háir til að stuðla að því að verðbólgan hnígi að markmiði innan ásættanlegs tíma, sérstaklega í ljósi þess að verðbólga hefur verið yfir því í 3½ ár samfleytt og horfur eru á því að svo verði um nokkurt skeið enn. Langvarandi frávik eru til þess fallin að grafa undan trausti á peningastefnuna," samkvæmt Peningamálum.

Peningamál Seðlabanka Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK