Erfitt að fá upplýsingar frá erlendum dótturfélögum banka

mbl.is/Eyþór

Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði á ársfundi stofnunarinnar í dag, að Fjármálaeftirlitið hafi rekið sig á erfiðleika í ákveðnum tilvikum við að afla nauðsynlegra upplýsinga frá erlendum dótturfélögum íslensku bankanna.

Jóna sagði, að Fjármálaeftirlitið geti, ef þurfa þyki, sótt þær upplýsingar sem þarf með aðstoð erlendra systurstofnanna. Slíkar beiðnir og heimsóknir séu hins vegar tímafrekar og veki upp efasemdir hjá hinum erlenda eftirlitsaðila um viðskiptahætti á íslenskum markaði. Slíkt kunni einnig að leiða til þess, að hinn erlendi eftirlitsaðili setji öll íslensk dótturfélög undir smásjá að nauðsynjalausu. Á þessu verði tekið bæði hvað varðar einstök tilvik og við samþykki á kaupum á dótturfélögum í framtíðinni.

Þá sagði Jónas að hlutaskrár einstakra félaga veittu mjög óljósa mynd um raunverulega eigendur hluta. Þannig geti hlutir t.d. hvílt í veltubókum eða á safnreikningum innanlands eða utan, komið til vegna framvirkra samnninga, verið í eigu fjárvörslusjóða, sem jafnvel væru vistaðir hjá fjármálafyrirtækjum erlendis, eða verið í eigu félagsins A, sem sé í eigu erlends félags B innan EES sem jafnvel sé í eigu erlends félags C utan EES.

„Að mínu mati þarf að endurskoða hlutafélagalögin og lög um verðbréfaskráningu með það að markmiði að ávallt sé ljóst hver hinn raunverulegi eigandi er. Aðilar eiga ekki að geta notið fullra eigendaréttinda ef aðrir hluthafar eða félagið sjálft hafa ekki vitneskju um hverjir þeir eru. Varðandi eignarhluti í fjármálaþjónustufyrirtækjum og skráðum hlutafélögum er slíkt gegnsæi sanngjörn og eðlileg krafa," sagði Jónas.

Ræða forstjóra Fjármálaeftirlitsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK