Krónan heldur áfram að veikjast

mbl.is/Júlíus

Krónan heldur áfram að veikjast í dag eftir að hafa veikst um 1,10% í viðskiptum gærdagsins en veiking krónunnar nemur nú 18,5% frá áramótum talið. Það sem af er degi hefur gengi krónunnar lækkað um 2,9% og gengisvísitalan stendur í 142 stigum sem er það hæsta sem hún hefur farið í þessari lækkunarhrinu.

Meira en sjö ár eru síðan gengisvísitalan lokaði á þessum slóðum en um miðjan janúar árið 2001 stóð gengisvísitalan í 140 stigum við dagslok, samkvæmt Morgunkorni Greiningar Glitnis.

Greining Glitnis spáir  því að gengi krónunnar lækki á komandi mánuðum og að það verði lægst á sumarmánuðum þessa árs. Evran verður þá í kringum 107 kr. og dollarinn nálægt 73 kr.

„Gengi krónu tekur að hækka að nýju á haustmánuðum og spáum við að krónan styrkist hægt og bítandi út spátímann eftir því sem dregur úr ytra ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, áhættulyst fjárfesta eykst að nýju og hagvaxtarhorfur fara að glæðast. Minnkandi vaxtamunur kemur þó í veg fyrir að gengishækkun krónu á komandi misserum verði í líkingu við þróunina á fyrri hluta síðasta árs, þegar krónan styrktist um 12%.

Gengi krónunnar hefur lækkað hraðar og meira síðustu vikur en við spáðum í febrúar. Gengislækkun síðustu vikna endurspeglar bæði leiðréttingu á uppsöfnuðu ójafnvægi í þjóðarbúskapnum og þær aðstæður sem ríkja á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þessar mundir, s.s. skert aðgengi að erlendu lánsfé, aukna áhættufælni fjárfesta ásamt væntingum um lækkun vaxta hér á landi.

Þegar hefur orðið viðsnúningur á vaxtamunarviðskiptum og hefur gengi krónunnar lækkað af þeim sökum, líkt og raunin er um ýmsar aðrar hávaxtamyntir. Markaðsaðstæður um þessar mundir eru með þeim hætti að sífellt ólíklegra er að framlengt verði í þeim krónubréfastöðum sem eru á gjalddaga næstu mánuðina, þótt mikil óvissa ríki vissulega þar um," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK